Kennurum í verkfalli boðið til veislu: Fannst við þurfa að sýna félögum okkar smá stuðning
Starfsfólk Nesskóla í Neskaupstað sýndi framhaldsskólakennurum, sem eru í verkfalli, stuðning sinn í verki í morgun með að bjóða kennurum úr Verkmenntaskóla Austurlands í samstöðukaffi. Kennarar í Nesskóla vildu með þessu senda starfssystkinum sínum baráttukveðjur.„Þessi hugmynd kviknaði fyrr í vikunni. Okkur fannst við þurfa að sýna félögum okkar smá stuðning," segir Eysteinn Þór Kristinsson, kennari í Nesskóla.
„Við erum kennarar líka þannig að þeirra barátta er okkar og öfugt. Við stöndum saman í þessu þótt það séu þeir sem eru í verkfalli. Þeir voru afar þakklátir og við áframsendum þeim baráttukveðjur."
Starfsfólk Nesskóla tók höndum saman og útbjó veisluborð og tók vel á móti stéttarsystkinum sínum. Langflestir af hinum fastráðnu kennurum Verkmenntaskólans þáðu boðið.
Ingibjörg Þórðardóttir, kennari í Verkmenntaskólanum, segir það hafa verið ánægjulega tilbreytingu að fá slíkt heimboð frá starfsólki grunnskólans og kærkomin stuðningsyfirlýsing við kjarabaráttu framhaldsskólakennara.
Kennarar Verkmenntaskólans hafa hist á hverjum morgni síðan verkfallið hófst á mánudag í safnaðarheimili Norðfjarðarkirkju. Þar eru nýjustu fréttir af samningarviðræðum ræddar yfir kaffibolla og prjónaskap.
Mynd: Eysteinn Þór Kristinsson