Kennurum í verkfalli boðið til veislu: Fannst við þurfa að sýna félögum okkar smá stuðning

verkfallskaffi vaStarfsfólk Nesskóla í Neskaupstað sýndi framhaldsskólakennurum, sem eru í verkfalli, stuðning sinn í verki í morgun með að bjóða kennurum úr Verkmenntaskóla Austurlands í samstöðukaffi. Kennarar í Nesskóla vildu með þessu senda starfssystkinum sínum baráttukveðjur.

„Þessi hugmynd kviknaði fyrr í vikunni. Okkur fannst við þurfa að sýna félögum okkar smá stuðning," segir Eysteinn Þór Kristinsson, kennari í Nesskóla.

„Við erum kennarar líka þannig að þeirra barátta er okkar og öfugt. Við stöndum saman í þessu þótt það séu þeir sem eru í verkfalli. Þeir voru afar þakklátir og við áframsendum þeim baráttukveðjur."

Starfsfólk Nesskóla tók höndum saman og útbjó veisluborð og tók vel á móti stéttarsystkinum sínum. Langflestir af hinum fastráðnu kennurum Verkmenntaskólans þáðu boðið.

Ingibjörg Þórðardóttir, kennari í Verkmenntaskólanum, segir það hafa verið ánægjulega tilbreytingu að fá slíkt heimboð frá starfsólki grunnskólans og kærkomin stuðningsyfirlýsing við kjarabaráttu framhaldsskólakennara.

Kennarar Verkmenntaskólans hafa hist á hverjum morgni síðan verkfallið hófst á mánudag í safnaðarheimili Norðfjarðarkirkju. Þar eru nýjustu fréttir af samningarviðræðum ræddar yfir kaffibolla og prjónaskap.

Mynd: Eysteinn Þór Kristinsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.