Fræðslufundir á Egilsstöðum og í Neskaupstað: Austfirskir svæðisfjölmiðlar
Hrafnkell Lárusson, sagnfræðingur og fyrrum forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga, verður með erindi á tveimur fræðslufundum Austurbrúar í vikunni.Fyrri fræðslufundurinn verður á Vonarlandi á Egilsstöðum þriðjudagskvöldið 25. mars og sá síðari í Kreml í Neskaupstað miðvikudagskvöldið 26. mars. Báðir fundirnr hefjast kl. 20:00.
Markmið fræðslufunda Austurbrúar er að bjóða íbúum ókeypis fróðleik og gefa þeim sem vilja kom á framfæri áhugaverðum rannsóknaniðurstöðum eða öðrum fróðlegum málefnum kost á því.
Hrafnkell hefur frá því um mitt ár í fyrra rannsakað svæðisbundna fjölmiðlun á árunum 1985-2010. Rannsóknin beinist sérstaklega að Austurlandi, en hún er unnin á vegum Háskóla Íslands.
Meginmarkmið rannsóknarinnar er að meta samfélagsleg áhrif svæðisbundinnar fjölmiðlunar og hlutverk svæðisfjölmiðla í dreifbýli. Á tímabilinu sem er til rannsóknar störfuðu bæði ljósvaka- og prentmiðlar á Austurlandi. Starfsstöðvar þessara miðla voru allajafna annað hvort á Egilsstöðum eða í Neskaupstað.
Í erindunum mun Hrafnkell fjalla almennt um svæðisfjölmiðlun á Austurlandi en víkja sérstaklega að starfsemi fjölmiðla sem starfræktir voru á hvorum stað.