Innblástursglóð að austan á Hönnunarmars
Afurðir úr hönnunarverkefninu Austurland: Innblástursglóð eru til sýnis á Hönnunarmars sem stendur yfir í Reykjavík um helgina. Verkefnið snýst um að rannsaka möguleika til smáframleiðslu á Austurlandi.Afurðirnar voru þróaðar haustið 2013 af hönnuðunum Max Lamb, Þórunni Árnadóttur, Juliu Lohmann og Gero Grundmann í samstarfi við aðila víðsvegar á Austurlandi.
Hlutirnir sem hér eru til sýnis eru innblásnir af upplifun hönnuðanna á Austurlandi þar sem sagnir, nýjar og gamlar aðferðir og mannauður spila hvert sitt hlutverk. Í nánu samstarfi hönnuðanna við handverksfólk og fyrirtæki á svæðinu var þekkingu miðlað á báða bóga. Markmiðið var að nýta þær auðlindir sem felast í verkþekkingu og efniviði svæðisins.
Hönnuðirnir störfuðu ýmist með gamalgrónum fyrirtækjum eins og netagerðinni Egersund á Eskifirði sem og einstaklingum á borð við Vilmund Þorgrímsson sem býr yfir yfirgripsmikilli sérþekkingu á náttúru Austurlands. Áhrif samstarfsaðilanna á hönnunarferlið endurspeglast í verkunum sem eru gerð úr netum, hreindýrahorni, þara, rekavið og grjóti.
Hver hönnuður hóf verkefnið með því að kynna sér auðlindir svæðisins og öðlast þannig betri skilning á möguleikum hráefnisins. Max rannsakaði fjöllin suður af Djúpavogi með Vilmundi og fræddist um jarðfræði svæðisins um leið og hann velti fyrir sér möguleikum grjótsins sem einkennir svæðið. Þórunn lærði grunnhandtök í netagerð undir leiðsögn netagerðarmannsins og kennarans Þórhalls Þorvaldssonar á Eskifirði. Julia og Gero skunduðu um strandlengjuna á Borgarfirði eystra og söfnuðu þara og rekavið.
Austurland er víðfeðmt svæði en í fjórðungnum búa einungis 12.500 manns í níu sveitarfélögum. Undanfarin ár hafa verkefni á borð við MAKE by Þorpið átt þátt í því að beina sjónum að handverki á svæðinu og verið innblástursglóð fyrir það skapandi samfélag sem þar er.
Verkefnið Austurland: Innblástursglóð varð til í beinu framhaldi af ráðstefnunni Make It Happen sem aðstandendur MAKE by Þorpið stóðu fyrir í september árið 2012. Þá var hönnuðum, hugmyndasmiðum og menningarfrömuðum boðið í samtal um framtíðarmöguleika svæðisins.
Austfirsku hönnunarafurðirnar verða nú fáanlegar í Spark Design Space, til að byrja með í litlu eða takmörkuðu upplagi. Markmiðið til lengri tíma er að fleiri fyrirtæki á svæðinu sjái tækifæri í að vinna í samstarfi við hönnuði og að verkefnið þjóni sem hvatning til fjárfestinga í nýjum framleiðslutækifærum.
Vörurnar eru sýndar í Sparki ásamt völdum gripum sem varpa ljósi á efnismenningu Austurlands. Þessum munum hefur verið safnað saman frá þeim stöðum þar sem hönnuðirnir bjuggu og störfuðu meðan á dvöl þeirra stóð. Saman gefa hlutirnir innsýn í samfélag og menningu svæðisins og þann bakgrunn sem hugmyndirnar spretta úr.
Á sýningunni eru séreinkenni dreifbýlisins skoðuð. Leitast er við að setja verkefnið fram á nútímanlegan hátt og forðast væmni og fortíðarþrá. Gerð er tilraun til að tenga saman fortíð og nútíð og skapa eitthvað nýtt og spennandi.
Með framsetningunni er leitast er við að segja ævisögu nýju gripanna (sem ekki hefur verið færð í orð,) "ævi á grip".Þennan framsetningarmáta má rekja til Alexander Girard, sem safnaði dæmum um alþýðulist í miðvesturríkjum Bandaríkjanna á sjötta áratug 20. aldar og setti upp svokallaða "söguveggi".
Þrjátíu mínútna heimildamynd um verkefnið eftir Körnu Sigurðardóttur og Sebastian Ziegler er hluti af sýningunni.
Sýningin opnaði í Spark Design Space á Klapparstíg 33 í Reykjavík í dag og stendur til 17. maí á opnunartíma verslunarinnar. Sýningin er einnig hluti af Hönnunarmars.
Á HönnunarMars er opnunartíminn sem hér segir:
10.00 - 22.00 fimmtudaginn 27. mars.
10.00 – 18.00 föstudaginn 28. mars.
12.00 - 17.00 laugardaginn 29 mars.
12.00 – 17.00 sunnudaginn 30 mars.
Mynd: Á Egilsstöðum töfraði Gero Grundmann fram leikfangalestar úr rekavið, hreindýrahorni og timbri í samstarfi við Markus Nolte, smið í Þorpssmiðjunni.