Athygli á Austurlandi: Ómissandi staðir og land álfadrottningarinnar
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. mar 2014 18:23 • Uppfært 27. mar 2014 18:23
Austfirðir hafa fengið töluverða athygli erlendis í vikunni fyrir áhugaverða áfangastaði ferðamanna. Fjallað var um bæði Seyðisfjörð og Borgarfjörð eystri í stórum erlendum fjölmiðlum í vikunni.
Seyðisfjörður kemur fyrir í upptalningu netmiðilsins Huffington Post „Unmissable Iceland: Things You Should Do That You've Probably Never Heard Of" eða „Ómissandi Ísland: Það sem þú ættir að gera en hefur sennilega aldrei heyrt um."
Dálkahöfundur segist þar hafa verið á tíu daga ferðalagi um Ísland í boði markaðsátaksins „Inspired by Iceland" og mælir sérstaklega með heimsókn til Seyðisfjarðar.
„Austast er Seyðisfjörður. Það er hægara sagt en gert að komast þangað en ferðin er undraverð og þegar þú er kominn geturðu ekki annað en sogast inn í menninguna og samfélagið sem þar er."
Á ferðavef breska ríkisútvarpsins BBC gefur að líta myndasyrpu frá Borgarfirði. Í inngangstexta að þótt ferðamannaiðnaðurinn sé sterkastur í kringum höfuðborgarsvæðið liggi straumurinn í vaxandi mæli austur á firði. Fuglaskoðun, gönguleiðir í einangruðu umhverfi og álfasögur seiði til sín ferðamennina.