Lokasýning LungA-skólans á morgun: Prufumánuðurinn farið fram úr væntingum
Nemendur sem taka þátt í prufumánuði LungA-lýðháskólans undirbúa nú lokasýningu skólans. Stjórnandi skólans segir mánuðinn hafa gengið „brjálæðislega vel."„Það er mikill metnaður lagður í sýninguna og þau hafa unnið langt fram á kvöld síðustu daga," segir Björt Sigfinnsdóttir, stjórnandi skólans.
Sautján nemendur frá ýmsum ríkjum hafa undanfarinn mánuð dvalið á Seyðisfirði í prufumánuði fyrir LungA-lýðháskólann sem formlega tekur til starfa í haust. Í þessum mánuði hefur verið leitast við að prófa sem mest úr námskránni sem kennt verður eftir.
„Þetta hefur verið mikil keyrsla og stíf vinna en gengið framar öllum vonum. Frítíminn hefur verið lítill enda áttuðum við okkur á að við þurfum að hafa fleiri frídaga, sem er eitthvað sem kemur þegar kennslan lengist."
Prufutímanum lýkur með sýningunni á morgun sem verður í HEIMA, Austurvegi 15 þar sem áður var verslun Pálínu Waage og hefst hún klukkan 15:00. Á sýningunni verða vídeóverk, ljósmyndasýning frá sviðsmyndanámskeiði og einkasýning á vegum nemendanna.
Nemendahópurinn á Seyðisfirði. Mynd: Björt Sigfinsdóttir