Dagmar Ýr: Ekki hægt að halda í miðla sem ekki bera sig
Búa verður einkareknum landshlutamiðlum raunhæft rekstrarform því þeir skipta máli fyrir umræðuna. Kröfur fjölmiðlaneytenda hafa breyst og því dugir ekki að biðja stöðugt um það sem einu sinni var.„Ég er uggandi yfir þeirri stöðu sem er á okkar nærmiðlum þar sem mikið er um einyrkja," segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, fjölmiðlafræðingur og upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls.
Dagmar var meðal frummælenda á málþingi Austurfréttar og Austurgluggans um svæðisbundna fjölmiðlun sem haldið var á Egilsstöðum á laugardag.
Hún þekkir vel starfsumhverfi fréttamanna eftir að hafa starfað hjá norðlensku sjónvarpsstöðinni N4. Hún sagðist hafa „sprungið á limminu" þegar hún stóð uppi sem eini fréttamaðurinn.
„Það var mikið álag og maður þurfti að fá fullt af nýjum hugmyndum á hverjum degi. Mín upplifun var sú að fólk var þakklátt fyrir umfjöllunina en rekstrarumhverfið var erfitt. Það er alltaf gerð sú krafa til fréttamanna að þeir viti allt," sagði Dagmar og hvatti menn til að láta fjölmiðla vita um áhugavert efni.
Að lokum fór það svo að fréttatími N4 var lagður af en í staðinn kom dægurmálaþátturinn Að norðan með mýkri áherslum sem notið hefur töluverðra vinsælda.
Á Austurlandi starfa þrír fréttamenn: einn hjá RÚV, einn hjá Austurfrétt og einn hjá Austurglugganum. Þeir standa einir í að framleiða efni fyrir sína miðla. „Ég var aldrei í það slæmri stöðu að þurfa að vera eigin tæknimaður," segir Dagmar.
Breyttar kröfur fjölmiðlaneytenda
Hún segir svæðisbundna fjölmiðla skipta máli í að miðla upplýsingum innan svæðis. Fréttir af landsbyggðinni séu gjarnan flokkaðar sem annars flokks sem sést af því að þær eru aftarlega í útsendingum landsmiðlanna.
Þá sé spurning um hvernig fréttum af landsbyggðinni sé miðlað. „Eru þær búnar til fyrir landið allt eða fyrir höfuðborgarbúa?"
Hlutverk Ríkisútvarpsins í þessu samhengi hefur verið töluvert til umræðu en nýr útvarpsstjóri hefur lýst yfir áhuga sínum á að efla starfsemina út á landi. Hún minnkaði verulega eftir að útsendingum svæðisstöðvanna var hætt árið 2010. Dagmar er þó efins að rétt sé að endurvekja þær.
„Ég tel ekki lausnina á öllum okkar vanda að kveikja aftur á svæðisútvarpinu. Það eru aðrar kröfur fjölmiðlaneytenda. Mér og minni kynslóð finnst fráleitt að þurfa að kveikja á útvarpinu á vissum tímum til að heyra eitthvað nýtt."
Nærtækara sé að fjölga mannskap á svæðisstöðvunum og koma efni af landsbyggðinni almennt inn í dagskrá RÚV.
Rekstur svæðismiðla snúist um mannskap og þar af leiðandi fjármagn. RÚV sé sá fjölmiðill sem best geti þjónað svæðunum því rekstrarféð sé sótt í ríkiskassann.
„Svæðismiðlar eru mikilvægir en það er ekki hægt að halda í miðla sem ekki reka sig. Raunhæft rekstrarform verður að vera fyrir hendi handa einkareiknum miðlum og svo þurfum við að vera dugleg við að minna RÚV á að þjónusta hin oft gleymdu svæði."