Gísli Einars: Ekki best farið með peningana að kveikja aftur á svæðisbundnum útsendingum

gisli einarssonRitstjóri Landans telur það ekki efla helst starfsemi Ríkisútvarpsins á landsbyggðinni að hefja á ný reglubundnar svæðisútvarpsins. Gríðarlegur kostnaður yrði við að koma þeim aftur í gang. Hann segist hafa byrjað að starfa fyrir RÚV því honum hafi þótt skorta á þjónustuna við Vesturland.

„Það er ekki svo að nálægðin við höfuðborgarsvæðið væri alltaf kostur. Það þurfti aftakaveður, eldsvoða eða gott gjaldþrot til að það þætti að senda fréttamann á Vesturland," segir Gísli Einarsson, stjórnandi sjónvarpsþáttarins Landans.

Gísli var lengst af fréttamaður á Skessuhorni og hann hefði helst viljað vinna þar áfram. Honum hafi þótt RÚV sinna hans svæði illa og hann því byrjað að senda frá sér fréttir og smám saman tók hann að sér stærri verkefni.

„Fjölmiðlun er eitt langstærsta byggðarmálið því hún á þátt í að móta sjálfsmynd og ímynd," sagði Gísli á málþingi Austurgluggans og Austurfréttar um héraðsfréttamiðla sem haldið var á Egilsstöðum á laugardag.

Mikilvægara að röddin heyrðist um allt land

Gísli mætti þar fyrir hönd Ríkisútvarpsins en töluverð umræða hefur farið af stað um hlutverk þess eftir að nýr útvarpsstjóri lýsti yfir vilja sínum til að efla starf þess á landsbyggðinni. Fjögur ár er síðan reglubundnum svæðisútsendingum í útvarpi var hætt.

„Ákvörðunin var ekki tekin því menn vildu ekki hafa svæðisútvarp. Þeim var hætt vegna niðurskurðar á fréttastofunni. Menn töldu mikilvægara að rödd svæðanna heyrðist út um allt land en ekki bara á þeirra eigin þúfu. Óskastaðan þegar velja þarf milli tveggja kosta er alltaf sú að geta valið þá báða en það var ekki hægt."

Í dag starfa þrettán starfsmenn RÚV á landsbyggðinni, níu á Akureyri og svo á Egilsstöðum, Ísafirði, Vestmannaeyjum og loks Gísli sjálfur í Borgarnesi. „Þetta allt og sumt er ekki mikið," sagði Gísli og lýsti vonum sínum um að starfsemin myndi glæðast aftur á landsbyggðinni. Til marks um það nefndi hann fund útvarpsstjóra með starfsmönnum á svæðisstöðvum þar sem farið hefði verið yfir hvað hægt væri að gera.

Dýrt að kveikja aftur á svæðisútsendingum

Mat Gísla er að besta ráðstöfunin sé ekki að endurvekja útsendingar svæðisútvarpanna eins og þær þekktust. Tengja þyrfti búnað sem hefði verið tekinn úr sambandi, endurnýja hann að hluta og koma upp nýjum því vart gengi að Vesturland, Suðurland og Suðurnes hefðu ekki sínar svæðisútsendingar.

Kostnaðurinn myndi skipta tugum milljóna. „Kannski er það þess virði en þessir fjármunir færu ekki í dagskrárgerð af landsbyggðinni."

Þá þurfi 2-3 starfsmenn á hverjum stað til að sinna útsendingunum. „Efling svæðisstöðvanna þýðir niðurskurð annars staðar því það eru engin fyrirheit um aukið fjármagn til RÚV. Þessa peninga yrði að finna annars staðar innan stofnunarinnar en það veit enginn hvaðan þeir kæmu."

Gísli lýsti þeirri skoðun sinni að viðbótarmaður á Egilsstöðum ætti að taka að sér dagskrárgerð fyrir útvarp og ef sá þriðji bættist við þá myndi hann einbeita sér að miðlun innan svæðis. Þá væru svæðisvefir RÚV að mörgu leyti ódýrari og betri kostir en svæðisútvarpið.

Umburðarlyndi fyrir ólíkum smekk

Spjótin hafa nokkuð staðið á Gísla fyrir efnistök Landans þar sem Austurland hefur þótt bera skarðan hlut frá borði. Hann sagði ritstjórnina fara reglulega yfir tölur um staðsetningu viðmælenda og aðra tölfræði til að gera hann sem fjölbreyttastan.

Gísli sagði að Austurland væri í þriðja sæti yfir innslög miðað við fjölda íbúa eftir landssvæðum og að meðaltali væri þrjú innslög í hverjum fjórum þáttum að austan.

Hann sagði eðlilegt að menn hefðu ólíkar skoðanir á miðli í sameign. RÚV sé bæði ætlað að sinna sérþörfum og almannaþörfum. „Við þurfum að hafa umburðarlyndi fyrir mismunandi smekk ef við ætlum að eiga þennan miðil saman."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.