Glæpaþættir í leikstjórn Baltasars teknir upp á Seyðisfirði?

trapped webÁform eru uppi að taka upp tíu þátta spennuþáttaröð á Seyðisfirði í leikstjórn Baltasars Kormáks í haust. Þættirnir voru kynntir fyrir erlendum sjónvarpsstöðvum á kaupstefnu í Cannes í síðustu viku.

„Um leið og ferja með 300 farþega á leið frá Danmörku siglir inn í lítinn hafnarbæ byrjar að moksnjóa. Ferjan kemst ekki fyrr en storminn lægir. Vegurinn til bæjarins verður kolófær. Á sama tíma skolar limlestu og sundurskornu líki upp á ströndina.

Ekki er hægt að bera kennsl á manninn en augljóst er að fáar klukkustundir er síðan maðurinn var myrtur. Andri Ólafsson, lögreglustjóri staðarins, gerir sér umsvifalaust grein fyrir að morðingi gengur laus í bænum.

Þegar það spyrst út grípur um sig ringulreið meðal farþega ferjunnar og íbúa bæjarins sem gera sér grein fyrir að þeir liggja allir undir grun og morðingi er innilokaður á meðal þeirra."

Þannig hljómar kynning á nýjum íslenskum spennuþáttum sem bera heitið „Trapped" sem þýða má sem „Innilokaður" á íslenskunni. Kynningunni fylgir mynd sem augljóslega er frá Seyðisfirði.

Þættirnir verða hver um sig klukkustundarlangir og tíu talsins. Baltasar Kormákur leikstýrir þeim og er hugmyndasmiður þeirra og framleiðandi. „Ég heillaðist af hugmyndinni um skelfilegan glæp í smábæ úr tengslum við umheiminn," er haft eftir Baltasar í fréttatilkynningu. „Ég hlakka til að koma með nýjan vinkil á norræna glæpaþætti fyrir áhorfendur um víða veröld."

Sigurjón Kjartansson skrifar handrit þáttanna ásamt Bretanum Clive Bradley, sem meðal annars hefur skrifað fyrir bresku spennuþættina Dauðir rísa sem sýndir hafa verið hérlendis. Reykjavík Studios framleiða þættina en dreifingafyrirtækið Dynamic Television, sem meðal annars fer með umboð fyrir skemmtiþátt Conan O'Brian, hefur tekið að sér markaðssetningu þáttanna á heimsvísu.

„Þættirnir hafa allt til brunns að bera til að njóta mikillar hylli. Þeir færa áhorfendur ekki bara inn í stórbrotið og framandi landslag heldur fylgja þeir eftir söguhetjum í tilfinningaríkum og spennuþrungnum aðstæðum," segir Klaus Zimmermann hjá Dynamic.

„Það býr mikið í Trapped og þáttaraðirnar gætu hæglega orðið þrjár," sagði Zimmerman í samtali við vef norræna kvikmyndasjóðsins að lokinni kaupstefnunni þar sem hann kvaðst hafa orðið var við mikinn áhuga kaupenda.

Þættirnir voru kynntir á MipTV kaupstefnunni í Cannes í Frakklandi í síðustu viku en hún er ein stærsta samkoma kaupenda og seljenda á sjónvarpsefni í heiminum. Ríkisútvarpið hefur þegar tryggt sér sýningarréttinn á þáttunum hérlendis en danska ríkisútvarpið aðstoðar við fjármögnun og framleiðslu.

Eftir því sem næst verður komist hefjast tökur á þáttunum í haust og sýningar haustið 2015. Undirbúningur þáttanna hófst árið 2012 og lét Baltasar þá hafa eftir sér í viðtali við Fréttatímann að þeir væru skrifaðir með Seyðisfjörð í huga.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.