Guðni Finns: Krakkarnir þekkja mig sem gula kallinn í Pollapönki

pollaponk webNorðfirðingurinn Guðni Finnsson verður í sviðsljósinu í kvöld þegar hann stígur á svið sem bassaleikarinn í Pollapönki í fyrri undanúrslitum Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sem fram fara í Kaupmannahöfn. Hann segir vinsældir lagsins „Enga fordóma" hafa aukist eftir því sem nær hefur dregið keppninni.

„Fyrst eftir að við unnum virtist fólk skiptast í tvo hópa erlendis eftir hvort því líkaði lagið eða ekki. Þetta er ekki hið dæmigerða júrópopp og þeir sem lifa og hrærast í því fíluðu ekki lagið okkar. Öðrum fannst þetta ferskur straumur í keppninni.

Álitið hefur breyst mikið eftir að við tókum lagið upp á ensku og gerðum myndbandið. Fólk skilur boðskapinn og er farið að taka okkur í sátt. Ef maður skoðar athugasemdirnar við myndbandið á Youtube þá er töluverður meirihluti þeirra nú jákvæður," sagði Guðni í viðtali sem birtist í síðasta tölublaði Austurgluggans.

Hann segir hópinn spenntan fyrir stóru stundinni í kvöld. „Við ætlum fyrst og fremst að hafa gaman af þessu og gera eins vel og við getum. Ég er aldeilis tilbúinn og fullur tilhlökkunar."

Í viðtalinu segist Guðni vera „120% Norðfirðingur" enda búi stórfjölskylda hans öll eystra enn. Hann fór hins vegar að heiman nítján ára gamall og hefur síðan verið í hópi fremstu bassaleikara landsins.

„Ég ætlaði aldrei að spila á bassa. Ég ætlaði að verða söngvari og var ráðinn í hljómsveitina Hálfur undir sæng sem slíkur. Menn voru ekki nógu ánægðir með söngvarana sem þeir höfðu prófað og því var talað við mig. Ég hafði í sjálfu sér aldrei spilað á hljóðfæri né sungið en var til í að prófa. Það dróst hins vegar á langinn að söngvarinn yrði rekinn en ég var sendur heim með bassann og ílengdist á honum."

Hann segir Júróvision-keppnina hafa fært honum aukna frægð. „Maður hefur orðið var við að maður er þekktara andlit en áður. Ef maður fer út í búð eru börn sem þekkja mann og koma til manns til að spjalla eða horfa á mann og segja móður sinni að þetta sé guli kallinn í Pollapönki."

Keppnin í kvöld fer fram í B&W höllinni í Kaupmannahöfn, gamalli skipasmíðastöð sem breytt hefur verið í tónleikasal og rúmar nú tíu þúsund áhorfendur. Guðni sér fram á að þetta verði stærstu tónleikar sem hann hefur spilað á. „Já, ég hugsa það. Þessir verða í beinni útsendingu og við erum að tala um milljónir manna sem horfa á."

Mynd: Pollapönk

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.