Vættir á vappi á List án landamæra

list an landamaera webListahátíðin List án landamæra verður sett í sjöunda sinn á Austurlandi um helgina. Hátíðin breiðir úr sér með fjölda viðburða í sex sveitarfélögum næstu tvær vikur. Lögð er áhersla á samvinnu ólíkra hópa á hátíðinni.

„Grunnhugmyndin að baki Listar án landamæra er að vekja athygli á listsköpun fatlaðra. Hún hefur hins vegar þróast yfir í hátíð þar sem allir eru með," segir Kristín Rut Eyjólfsdóttir, verkefnisstjóri Listar án landamæra á Austurlandi. „Við leggjum mikla áherslu á sýnilegt samstarf milli ólíkra hópa og að fatlaðir og ófatlaðir vinni saman og fái að njóta sín í listsköpun."

Þema hátíðarinnar í ár eru vættir og þjóðsögur og því verða slíkar forynjur áberandi á henni. Þannig hafa Grýla og Leppalúði boðað komu sína á setninguna við Gistihúsið á Egilsstöðum klukkan 14:00 á laugardag en í Miklagarði á Vopnafirði verður opnuð sýning á verkum leikskólabarna upp úr þjóðsögum. Sýningar verða opnaðar á þremur stöðum á Djúpavogi á morgun. Listviðburðir verða síðan á víð og dreif um Austurland fram til 25. maí.

Veitinga- og þjónustuaðilar á Héraði taka einnig þátt í hátíðinni og munu aðlaga framreiðslu sína að þema hátíðarinnar, meðal annars með að bjóða upp á tröllahlaðborð og drekaborgara. Kristín segir markmið þessa samstarfs vera að færa hátíðina nær íbúum og þeirra daglega lífi.

Hátíðin er nú haldin í sjöunda sinn á Fljótsdalshéraði en í annað sinn í Fjarðabyggð og á Seyðisfirði. Dagskrá er nú á Borgarfirði, Djúpavogi og Vopnafirði í fyrsta sinn. Nánar má fræðast um dagskrá hátíðarinnar á www.listin.is eða með því að leita að „List án landamæra – Austurland" á Facebook.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.