Sumarið er tíminn: Nemendur í unglingadeild efna til tónleika

sumarid er timinnUnglingar úr félagsmiðstöðinni Ný-ung efna til tónleika í Sláturhúsinu á fimmtudagskvöld klukkan 20:00. Tilgangurinn er að safna fyrir búnaði fyrir miðstöðina.

Hugmyndin varð til á nemendaráðsfundi

Ívar Andri Bjarnason og Rannveig Erlendsdóttir sitja í nemendaráði Egilsstaðaskóla þar sem að hugmyndin kviknaði fyrst að halda slíka tónleika.

Að sögn Ívars voru þau að ræða um hvað vantaði helst í Nýung og voru allir sammála um að það sem vantaði mest væri tölva til þess að klippa kvikmyndir, vinna ljósmyndir, búa til tónlist og fleira.

Ljóst var að slík tölva myndi kosta talsverðan pening og datt nemendaráði því það í hug að halda fjáröflunartónleika.

„Okkur datt strax í hug að halda þá í Sláturhúsinu, því að þar er besta aðstaðan fyrir slíkt auk þess að það kostar okkur ekki neitt að halda tónleika þar," segir Rannveig.

Skemmtilegast þegar frumkvæðið kemur frá krökkunum

Árni Pálsson forstöðumaður félagsmiðstöðva á Fljótsdalshéraði er mjög ánægður með hugmyndina. „Það er alltaf gaman þegar krakkarnir fá góðar hugmyndir og það er í mínum verkahring að láta góðar hugmyndir verða að veruleika.

Okkar sveitarfélag er ríkt af hæfileikaríkum unglingum með stútfulla hausa af góðum hugmyndum. Hugmyndin og framkvæmdin er þeirra og hvet ég því alla sem geta til þess að mæta á tónleika."

Sumarið er tíminn

Ákveðið var að tónleikarnir myndu bera nafnið „Sumarið er tíminn" því þá er „alltaf gaman, það er tíminn," segja þau bæði.

Það eru krakkar úr 8-10 bekk á Fljótsdalshéraði mun sjá um flutning atriða og framkvæmd tónleikanna.

Hefjast þeir klukkan 20.00 eins og áður sagði, ókeypis er fyrir grunnskólanemendur Fljótsdalshéraðs en fyrir aðra kostar 1000 krónur. Rétt er að benda á að enginn posi verður á svæðinu.

Rannveig og Ívar vilja koma fram sérstöku þakklæti fyrir hönd nemendaráðanna á Fljótsdalshéraði til Sláturhússins fyrir að gera þeim fært að halda þennan viðburð.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.