Framboðsfundir í Fjarðabyggð
Fundaröð frambjóðenda í þéttbýliskjörnum Fjarðabyggðar hefst á Stöðvarfirði í kvöld. Þá mætast oddvitar framboðanna þriggja í Speglinum í Ríkisútvarpinu í kvöld.Útvarpsútsendingin hefst klukkan 18:05 á samtengdum rásum. Meðal þess sem rætt verður á framboðsfundinum í kvöld eru skuldir bæjarfélagsins, samgöngumál og deilur um nýjan leikskóla í Neskaupstað.
Stjórnendur þáttarins eru fréttamennirnir Rúnar Snær Reynisson og Arnar Páll Hauksson. Þrír listar eru í framboði: Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Fjarðalistinn.
Eftir þáttinn halda oddvitarnir suður á Stöðvarfjörð þar sem haldinn verður opinn framboðsfundir í grunnskólanum sem hefst klukkan 20:00.
Fundurinn markar upphaf framboðsfundaraðar í sveitarfélaginu. Einn fundur verður á dag til föstudags. Næst verður farið til Fáskrúðsfjarðar, síðan Reyðarfjarðar, svo Eskifjarðar og loks Neskaupstaðar.
Fundirnir hefjast allir klukkan 20:00 og fara fram í grunnskóla hvers staðar, utan Eskifjarðar en sá fundur verður í Kirkju – og menningarmiðstöðinni. Þá hefur ekki enn verið tekin ákvörðun um tímasetningu fundar á Mjóafirði.