Skip to main content

Sjómannadagsblað Austurlands 2014 komið út

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. maí 2014 10:54Uppfært 30. maí 2014 10:57

Sjoaust Forsida 2014 SMALLSjómannadagsblað Austurlands er komið út í 20. sinn en líkt og undanfarin ár er blaðið um 90 blaðsíður að stærð. Hátt á annað hundrað nýrra og gamalla ljósmynda prýða blaðið og eru efnistökin vítt og breitt af Austurlandi.


Á meðal efnis í blaðinu í ár má nefna viðtal við Tolla Morthens myndlistarmann og fleiri sem voru í áhöfn Mb Rosans, skuttogarans Barða NK, 1976 til 1977 en áhöfn þessi er ein sú skrautlegasta í útgerðarsögu Íslendinga – „Áhöfnin á Rosanum sem aldrei edru sést."

Stella Steinþórsdóttir, Stella stóra, segir meðal annars frá magnaðri sjóferð síldarsumarið 1961, og rifjaður er upp harmleikur við Hornafjörð árið 1991 er skólaskipið Mímir fórst í innsiglingunni.

Guðni Ölversson rekur sögu Eskju í myndum og máli en félagið fagnar í ár 70 ára afmæli og Magni Kristjánsson, skipstjóri frá Norðfirði, segir frá minnisstæðum jólatúr á Vetti SU árið 1957.

Fjölmargt annað má finna í blaðinu svo sem umfjallanir um Franska spítalann á Fáskrúðsfirði, hákarl á Vopnafirði, síld á Seyðisfirði, dulmálslykla síldaráranna, sjómannamál og fleira.

Sjómannadagsblað Austurlands er komið í dreifingu um allt Austurland en þeir sem búa utan fjórðungsins geta nálgast blaðið í Grandakaffi í Reykjavík eða pantað á vefnum www.sjoaust.is.

Ritstjóri Sjómannadagsblaðs Austurlands er sem fyrr Kristján J. Kristjánsson, frá Sjónarhóli á Norðfirði.