Lítt þekktir fossar rannsakaðir
Nú liggja fyrir niðurstöður fyrsta áfanga verkefnisins ,,Fossar á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs" sem Austurbrú tekur þátt í. Guðrún Á. Jónsdóttir hefur unnið verkefnið fyrir hönd stofnunarinnar og segir verkefnið auka verulega við grunnþekkingu á þjóðgarðinum.Í maí lauk fyrsta áfanga í verkefninu ,,Fossar á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs". Markmið verkefnisins er að finna og staðsetja minna þekkta fossa og flúðir á Austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, skrifa örstutta lýsingu á hverjum og taka ljósmynd.
Verkefnið er styrkt af „Vinum Vatnajökuls", unnið af Guðrúnu Á. Jónsdóttur, starfsmanni Austurbrúar, og Kristín Ágústsdóttir sá um kortavinnslu og gerð vefsvæðis.
„Töluverðar upplýsingar liggja fyrir í eldri skýrslum um fossa á þeim svæðum sem tengjast áhrifasvæðum virkjunar við Kárahnjúka," segir Guðrún en verkefnið er unnið að hennar frumkvæði.
„Þeir eru flestir utan marka Vatnajökulsþjóðgarðs eins og þau eru nú skilgreind. Vitað var að einhverjir fossar væru í ám og lækjum innan þjóðgarðsmarka á austursvæði en þeir hafa ekki hlotið eins mikla athygli og eru misvel þekktir. Með þessu verkefni erum við að auka grunnþekkingu á þjóðgarðinum sem mun vonandi nýtast við gerð fræðsluefnis í framtíðinni," segir Guðrún.
Afraksturinn af fyrsta áfanga verkefnisins birtist í skýrslu sem lesa má hér. Áætlað er að skoða fleiri ár- og lækjarfarvegi á svæðinu sumarið 2014 og bæta við fossum og flúðum eftir því sem fleiri slíkir finnast.
Guðrún á vettvangi við ársprænu norðaustan við Nálhúshnjúka. Mynd: Austurbrú