Vilhjálmur Einarsson áttræður í dag: Ég bað ekki um gull eða silfur heldur ávöxt erfiðisins

vilhjlamur einars oli rafns isiheidursholl webVilhjálmur Einarsson, silfurverðlaunahafi í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne árið 1956 og fyrrverandi skólameistari Menntaskólans á Egilsstöðum er áttatíu ára í dag.

Vilhjálmur fæddist að Hafranesi í Reyðarfirði en foreldrar hans voru Sigríður Vilhjálmsdóttir og Einar Stefánsson. Árið 1956 setti Vilhjálmur Norðurlandamet í þrístökki sem tryggði honum sæti á Ólympíuleikunum.

Þar setti hann Ólympíumet 16,26 metra sem stóð í tvo klukkustundir þar sem Brasilíumaðurinn Ferreira Da Silva sló það í síðustu umferðinni.

„Eins og oft þegar mannssálin ráfar í myrkrum örvæntingarinnar, er bænin eina leiðin, og þar sem ég sat þarna í íþróttagallanum, þá baðst ég raunverulega fyrir," skrifar Vilhjálmur í bréfi sem dagsett er í Ástralíu 1. desember 1956 og birtist í Tímanum tíu dögum síðar.

„Ég bað samt ekki um gull eða silfur, heldur þess að mér mætti heppnast að sýna ávöxt þess erfiðis, sem undirbúningurinn hafði haft í för með sér, að mér mætti heppnast vel. Einnig bað ég þess að ef mér heppnaðist vel, þá mætti mér auðnast að nota áhrif mín, ef einhver yrðu, til góðs fyrir Ísland og íslenzka æsku.

Næsta stökk heppnaðist vel, miklu betur en ég, eða nokkur annar, held ég hafi þorað að vona. Það var svo hárfínt á plankanum að það leið löng stund þar til það var úrskurðað gilt.

Ég var eitthvað svo dofinn eftir einbeitinguna að mér fannst ekkert til koma. Þótt ég brosti og veifaði til fólksins var eins og ég væri ekki viðstaddur."

Vilhjálmur varð fyrstur til að vera valinn íþróttamaður ársins á Íslandi og hlaut þá nafnbót alls fimm sinnum.

Vilhjálmur varð fyrstur Íslendinga til að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum, enn eini Íslendingurinn til að setja Ólympíumet og fyrstur til að vera tekinn inn í frægðarhöll Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands árið 2012.

Frjálsíþróttasamband Íslands hefur í tilefni dagsins opnað Facebook-síðu þar sem hægt er að senda Vilhjálmi kveðju og skoða fróðleiksmola um feril hans.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.