Fortitude: Snjóleysið það eina sem háði tökuliðinu

patrick spence fortitude webYfirframleiðandi Fortitude-þáttanna segist þakklátur Austfirðingum fyrir hlýjar móttökur. Tökur þáttanna hafa gengið vel er frá er talið snjóleysið sem hefur sett talsvert strik í reikninginn. Hann segir aðstandendur þáttanna meira en til í að koma aftur austur ef þeir njóta vinsælda.

„Þátturinn gerist á norðurhjara veraldar og okkur fannst þessi staður vera eitt það næsta sem við kæmumst því að endurskapa norðurskautið. Landslagið er stórfallegt, byggingarnar viðeigandi og starfsliðið frábært," segir Patrick Spence, yfirframleiðandi Fortitude-þáttanna í viðtali við Austurgluggann sem kom út á föstudag.

Patrick segist fyrst hafa komið austur á firði í febrúar í fyrra. Framleiðendurnir skoðuðu fyrst tökustaði í Kanada og Noregi en fundu ekki hentuga staði. Eftir að þeir komu til Íslands vissu þeir að þeir væru komnir á rétta staðinn.

„Við vildum finna stað sem virtist fullkomlega einangraður og okkur líður hér eins og við séum í einskismannslandi. Það getur verið erfitt að skapa þá tilfinningu annars staðar.

Við fengum strax góða tilfinningu fyrir Íslandi og Pegasus þegar við komum til landsins. Eftir það var þetta spurning um að finna rétta staðinn.

Við byrjuðum á vesturströndinni en hún var ekki nógu einangruð þannig að Pegasus sögðu við okkur: „Við vitum hvert þið eigið að fara" og fóru með okkur hingað. Þegar við komum sögðum við einfaldlega „vá!"

Patrick segir Austfirði hafa reynst frábærlega sem tökustað. Þar skipti miklu máli hversu opnum örmum samfélagið hafi tekið þáttagerðafólkinu.

„Við höfum virkilega notið þess að vera hér. Samfélagið allt hefur tekið ótrúlega vel á móti okkur og við höfum skemmt okkur, þrátt fyrir veðrið.

Við vildum snjó en fengum hann ekki og það hefur valdið okkur erfiðleikum. Það hefur samt ekki komið í veg fyrir að við gætum gert þáttinn sem okkur langaði til að gera.

Tökum lauk fyrir tíu dögum. „Snjóleysið hefur verið okkar helsta áskorun, ekkert annað. Þess utan hefur verið frábært að mynda hér og það er samspil góðs samfélags og þess starfsfólks sem Pegasus leggur okkur til."

Hann segir Fortitude-gengið reiðubúið að koma aftur. „Ef sýningar ganga vel þá gætum við haldið honum áfram í 5-7 ár. Fortitude er samfélag sem við viljum gjarnan heimsækja aftur.

Ef einhver gæti lofað mér betra veðri þá væri öruggt að við kæmum aftur. En í hreinskilni sagt þá myndi veðrið ekki einu sinni stöðva okkur. Ef okkur býðst að koma aftur þá gerum við það."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.