Skip to main content

SAM-félagið með sumarsýningu Sláturhússins

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. jún 2014 13:55Uppfært 17. jún 2014 18:35

samfelagid sippubondSam-félagið, grasrótarsamtök skapandi fólks á Austurlandi, stendur að baki sumarsýningu Sláturhússins á Egilsstöðum sem opnuð verður á morgun. Útgangspunkturinn í ár er hönnun og listhandverk með vísan í menningu svæðisins og staðbundin hráefni.


Sýningin er tvíþætt og sýnir annars vegar afrakstur úr hönnunarverkefninu Designs from Nowhere sem fram fór á Austurlandi 2013 – 2014 og hins vegar samsýningu félaga í SAM-félaginu. Samtökin eru ört vaxandi afl á Austurlandi og vinna í alþjóðlegu samstarfi við að tengja saman ólíka þekkingu og reynslu sem leitt getur til nýsköpunar á sviði skapandi greina.

Sumarsýning Sláturhússins á Egilsstöðum hefur verið árlegur viðburður frá árinu 2009 og hafa að meðaltali fimmþúsund gestir sótt hverja sýningu. Það má því segja að sumarsýningin sé orðinn mikilvægur þáttur í lista- og menningarlífi staðarins.

Sýningin stendur til 10.ágúst og er opin mánudaga-fimmtudaga 18 – 22 og laugardaga 13 - 17.