Sigríður Kristín átti verðlaunatillöguna um Austurlandskippuna
Sigríður Kristín Sæmundsdóttir vöruhönnuður úr Reykjavík er sigurvegari samkeppni um „Austurlandskippuna." Efnt var til samkeppni um hönnun á minjagrip fyrir Austurland.Efnt var til hugmyndasamkeppni um lyklakippu í tengslum við listahátíðina List á landamæra í byrjun maí. Lyklakippan átti að sækja innblástur í þjóðsöguna um drekann, landvætt Austurlands og einnig var markmiðið að til yrði minjagripur sem hægt væri að framleiða úr staðbundnu hráefni.
Alls bárust 6 tillögur, alls staðar af að landinu, og voru þær til sýnis í Sláturhúsinu á Egilsstöðum fram í byrjun júní. Dómnefnd hefur skilað áliti og varð Sigríður Kristín sigurvegari keppninnar.
Hugmynd Sigríðar uppfyllti þau skilyrði sem sett voru fram í keppnisreglum og þótti hennar tillaga vera fagleg, heilsteypt og fullkláruð vara. Lyklakippuna verður hægt að framleiða úr mismunandi hráefnum og er einnig vel fallin til fjöldaframleiðslu.
Annað sæti hlaut Helgi Eide Guðjónsson frá Fáskrúðsfirði og í því þriðja varð Trausti Tryggvason frá Stykkishólmi. Verðlaunahafinn hlaut peningaverðlaun að upphæð kr. 70.000 og voru það Brúnás innréttingar á Egilsstöðum sem gáfu verðlaunaféð. Verðlaunahafinn fær einnig að launum ráðgjöf frá Austurbrú varðandi framleiðslu og markaðssetningu vörunnar.