75 ára afmæli Gunnarshúss á Skriðuklaustri
![skriduklaustur](/images/stories/news/umhverfi/skriduklaustur.jpg)
Gunnar Gunnarsson skáld (1889-1975) byggði hið einstaka hús á Skriðuklaustri þegar hann sneri heim eftir rúmlega 30 ára dvöl í Danmörku árið 1939. Draumur hans var að byggja herragarð að evrópskum hætti og stunda stórbúskap í sinni fæðingarsveit, Fljótsdalnum.
Vinur hans, þýski arkitektinn Fritz Höger, teiknaði herragarðinn fyrir Gunnar og hafist var handa við bygginguna vorið 1939. Frá júní og fram í október unnu að jafnaði 20-30 manns á dag að húsbyggingunni og var hún þá nánast fullkláruð.
Samkvæmt vinnudagbók unnu 64 einstaklingar í um 33.000 vinnustundir að húsinu á þessum fáu mánuðum. Gunnar og kona hans Franzisca fluttu inn fyrir jól þá um veturinn.
Gengið var frá torfi á þaki og dregið í milli steina og málað sumarið 1940. Svalir voru hins vegar ekki hlaðnar fyrr en undir lok 8. áratugarins.
Aldrei varð af byggingu útihúsa og vélageymsla í svipuðum stíl eins og teikningar gerður ráð fyrir að kæmu kringum íbúðarhúsið. Því stendur Gunnarshús eitt og sér sem minnisvarði um stórhug Gunnars.
Þau hjónin bjuggu aðeins í níu ár á Skriðuklaustri en gáfu íslensku þjóðinni jörðina og allan húsakost skuldlaust og til ævarandi eignar árið 1948.
Næstu áratugi var rekin tilraunastöð í landbúnaði á staðnum en frá árinu 2000 hefur Gunnarsstofnun stýrt þar menningar- og fræðasetri í minningu Gunnars skálds.
Gunnarshús á Skriðuklaustri er friðað að ytra borði síðan árið 2008.