Biskup Íslands: Kirkja er ekki bara bygging heldur samfélag kristinna manna
Trúin mótar einstaklinginn og þar með samfélag mannanna. Kirkja er annað og meira heldur en stök bygging. Hún byggist á því starfi sem innan hennar þrífst.„Þegar þéttbýli myndast er það eitt af því fyrsta sem fólk gerir að finna stað til að koma saman á og lofa sinn Guð," sagði Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands í predikun sinni í hátíðarmessu í Egilsstaðakirkju á sunnudag sem haldin var í tilefni af 40 ára afmæli kirkjunnar.
Agnes lagði á það áherslu að kirkja væri ekki bara bygging heldur samfélag manna. „Kirkjan er samfélag þeirra sem trúa því að Jesús sé Messías, guðssonurinn, krossfestur og upprisinn frelsari mannanna.
Sé sá Guð sem skapaði himinn og jörð, sá Guð sem við getum leitað til í bæn, sá Guð sem huggar og hjálpar á döprum og erfiðum stundum lífs okkar og sá Guð sem gefur okkur lífið og veitir okkur lífskraftinn."
Agnes lagið á það áherslu að trúin mótaði einstaklinginn og þar með samfélagið. „Það sem við heyrum hefur áhrif á okkur. Og það sem við sjáum hefur einnig áhrif á okkur. Það sem snertir við tilfinningum okkar og hefur áhrif á hugsanir okkar mótar okkur. Trúin mótar líf okkar og hana þurfum við að næra. Trúin er eins og hvert annað blóm sem þarfnast vökvunar.
Skýrasta einkenni hins kristna safnaðar er samfélagið. Trúin er samfélagsmótandi. Samfélagið við Guð kallar á samfélag við trúsystkin. Samfélag við Guð og við trúsystkin í nafni Jesú Krists er skjól og vörn. Þess vegna var þessi kirkja byggð, þess vegna er komið saman í henni til að lofa Guð og ákalla. Þess vegna er haldið upp á 40 ára afmæli hennar.
Ég sá úr flugvélinni áðan að kirkjan stendur á áberandi stað og sést eflaust víða að úr bænum. Hún er ekki sólin, ekki ljósið. En hún vísar upp fyrir sig, þangað sem Jesús er. Og þar er að finna kraftinn og kjarkinn, sem við öll þörfnumst í þessu lífi."
Agnes fagnaði því að öflugt tónlistarstarf hefði alla tíð þrifist í kirkjunni. Stöðugleiki á prestum gæfi einnig vísbendingu um að andinn í söfnuðinum væri góður.
„Tónlistin hefur hljómað hér sem í öðrum kirkjum, enda hefur tónlistin miklu hlutverki að gegna í kirkjustarfi. „Það einkennir þá sem elska að þeir syngja," sagði Ágústínus kirkjufaðir. Kirkjutónlistin lauk upp fyrir honum sannleikanum himneska. Ágústínus er ekki einn um þá reynslu.
Eftirtektarvert er að sami presturinn hefur þjónað hér 34 ár af þeim 40 sem kirkjan hefur verið í notkun. Það bendir til þess að hér hafi verið gott að þjóna og samstarfsfólkið gott."