Bygging kirkjunnar merki um stórhug í samfélaginu – Myndir
Fyrrum sóknarprestur í Vallanesprestakalli segir það tákn um stórhug í samfélaginu að hafa ráðist í byggingu kirkju á Egilsstöðum fyrir fjörutíu árum. Nýir prestar í sameinuðu Egilsstaðaprestakalli voru kynntir til leiks þegar haldið var upp á 40 ára afmæli kirkjunnar á sunnudag.„Við þökkum traustið og hlökkum til að fá að starfa í sókninni," sögðu þau Þorgeir Arason og Ólöf Margrét Snorradóttir sem nýverið voru skipuð í embætti sóknarprests og prests í Egilsstaðasókn.
Þau voru bæði við hátíðarmessu og voru kynnt fyrir kirkjugestum að athöfninni lokinni.
Séra Vigfús Ingvar Ingvarsson, sem þjónaði sem sóknarprestur í kirkjunni í 34 ár, segir byggingu kirkjunnar hafa verið dæmi um „samfélag sem sýndi stórhug" en hann rakti sögu hennar í kaffisamsæti eftir messuna.
Séra Davíð Baldursson, prófastur í Austurlandsprófastsdæmi minntist sérstaklega á öflugt menningar-, tónlistar- og æskulýðsstarf í kirkjunni.
„Við erum hér á bjartasta tíma ársins og það á alltaf að vera hásumar í okkar huga þegar við erum að starfa," sagði séra Davíð þegar hann óskaði sóknarbörnum til hamingju með daginn.