Vopnaskak: Hátíð byggð upp af heimafólki

vopnaskak13Bæjarhátíðin Vopnaskak nær hámarki um helgina. Stjórnandi hátíðarinnar segir hana byggjast upp á því sem Vopnfirðingar séu sjálfir tilbúnir að gera.

Hátíðin hófst með listasmiðjum á mánudag undir stjórn þeirra Viktoríu Blöndal og Kolfinnu Nikulásdóttur sem útskrifaðar eru úr Listaháskóla Íslands.

Magnús Már Þorvaldsson, stjórnandi Vopnaskaks, segir skráningu í smiðjurnar hafa farið hægt af stað en „heldur betur hafi fjölgað á síðustu stundu" og þátttakendurnir fyrir rest orðið á þriðja tuginn.

„Það skiptir mestu að krakkarnir hafi ánægju af smiðjunum og fái gagnlega hluti, eins og það að kunna að tjá sig, út úr þeim," segir Magnús en lokaafurð smiðjanna verður sýnd í Miklagarði annað kvöld.

Í kvöld verður skemmtun í Kaupvangi með trúbadornum Hákoni Guðna sem spilar knattspyrnu með Einherja í sumar. Stærsti dagurinn er á morgun en hann hefst á golfmóti og eftir hádegi verður markaðstorg og skemmtun í íþróttahúsinu.

Um kvöldið verður fjölskylduskemmtun í Miklagarði þar sem fram koma þátttakendur úr listasmiðjunum, dúettinn Steinríkur sem á ættir sínar að rekja til Vopnafjarðar og Hvanndalsbræður. Á sunnudag er safnadagur þar sem Bustarfell er í forgrunni.

„Mér finnst í þessari hátíð bera hæst það sem við gerum sjálf. Þetta eru Vopnfirðingar að skemmta sér og öðrum og byggir fyrst og fremst á okkar framlagi," segir Magnús Már.

Frá markaðsdegi á Vopnaskaki. Mynd: Vopnafjarðarhreppur/Magnús Már

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.