Skip to main content

Ferðast tíu þúsund kílómetra á traktor: Stóri draumurinn að koma til Íslands

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. júl 2014 19:06Uppfært 05. júl 2014 00:06

reiner traktorkall 0005 webSvisslendingurinn Reiner Huttasch var meðal þeirra farþega sem komu með Norrænu til Seyðisfjarðar í gærmorgun. Það væri ekki í frásögur færandi nema fyrir að hann ferðast um á traktor með lítið tréhýsi í eftirdragi sem hann byggði sjálfur. Reiner hyggst keyra hringinn en sú ferð er hluti af mun stærra ferðalagi.


„Ég hef haft þessa ferð í huga í 7-8 ár og núna er ég lagður á stað,"segir Reiner.

Hann hóf ferðalagið heima í Sviss fyrir sex vikum síðan og fór þaðan í gegnum Þýskaland og síðan Danmörku þaðan sem hann tók ferjuna til Íslands.

Hann stefnir síðan til Hjaltlandseyja og þaðan Skotlands áfram suður í gegnum England, undir Ermasundið og síðan í gegnum Frakkland, Belgíu og Lúxemborg áður en hann kemur heim aftur.

Reiner áætlar hálft ár í þetta ferðalag sitt og hann muni á því leggja að baki um tíu þúsund kílómetra.

„Mig hefur dreymt um þetta lengi. Ég er komin á eftirlaun og hef núna tíma til að fara í þetta ferðalag."

Reiner hefur undirbúið ferðina í fimm mánuði og áætlar að eyða sex vikum í Íslandsferðina. „Stóri draumurinn minn hefur alltaf verið að fara til Íslands í þessari ferð. Ég hef farið á bíl um Noreg, Svíþjóð og Finnland en ég vildi alltaf fara til Íslands á traktornum."

Dráttarvélin sjálf er sextíu ára gömul en nýlega uppgerð með þriggja strokk Perkins-mótor, 39 hestafla úr Massey Ferguson. Hún er grænleit en ríkulega skreytt fánum og límmiðum þeirra landa sem Reiner hyggst ferðast um.

Hýsið vekur ekki minni eftirtekt en inni í því hefur Reiner allt til alls. „Já, ég smíðaði það alveg sjálfur. Það tók mig um 300 klukkutíma. Það er í því rafmagn, vatn og allt."

Leiðrétt 23.59: Upphaflega var fullyrt að ferðalagið væri milljón kílómetrar. Nánari útreikningar og þýðingarvinna leiddi í ljós að það stóðst ekki.