María Ósk hlaut hvatningarverðlaun TAKs

maria osk anna bjork takMaría Ósk Kristmundsdóttir, starfsmaður Alcoa Fjarðaáls, hlaut hvatningarverðlaun Tengslanets austfirskra kvenna (TAK) sem afhent voru fyrir skemmstu. María hefur unnið ötullega að jafnréttismálum innan Fjarðaáls.

Verðlaunin er veitt árlega konu á Austurlandi sem talin er hafa sýnt frumkvæði og áræðni í atvinnulífi, menningu og samfélagi ásamt því að skara fram úr í störfum sínum í þágu kvenna.

María Ósk hefur verið í TAK síðan 2009. Hún hefur starfað hjá Fjarðaáli síðan 2006 og var eina konan í því teymi sem hún starfaði í.

Hún fann engan mun á sér og strákunum í vinnunni fyrr en hún kom aftur í vinnu eftir fæðingarorlof. Þá tók hún eftir því að karlar með svipaðar fjölskylduaðstæður áttu auðveldara með að sinna krefjandi vinnu og yfirvinnu en hún. Þetta leiddi til þess að hún óskaði eftir því að starfa í jafnréttisnefnd Fjarðaáls.

María hefur starfað ötullega að jafnréttismálum hjá Fjarðaáli þar sem hún hefur meðal annars leitt vinnu við að skilgreina 10 ára aðgerðaáætlun til að ná jöfnu hlutfalli karla og kvenna hjá Fjarðaáli.

Einnig hefur María komið því til leiðar að móðurfélag Alcoa Fjarðaáls ákvað að skrifa undir jafnréttissáttmála UN Women í vor og stuðla þannig að jafnrétti kynjanna innan alls fyrirtækisins.

Til viðbótar við þetta hefur María verið verkefnastjóri Soroptimistaklúbbs Austurlands og tekið þátt í störfum TAKs. Maríu voru veitt verðlaunin með þeim skilaboðum að hún hafi unnið gott og óeigingjarnt starf í þágu kvenna. Einnig liggur í verðlaununum hvatning að halda áfram því góða starfi sem hún hefur þegar unnið.

Verðlaunin voru afhent á aðalfundi samtakanna á Djúpavogi. Þar var einnig kosin ný stjórn en Anna Björk Hjaltadóttir fráfarandi formaður, Þuríður Sigurðardóttir og Sigrún Þorsteinsdóttur létu af störfum.

Stjórn Tengslanetsins skipa nú Magnfríður Ólöf Pétursdóttir, Anna Katrín Svavarsdóttir, Elísabet Reynisdóttir, Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir og Sigrún Hólm.

María Ósk til vinstri ásamt Önnu Björk, fráfarandi formanni. Mynd: TAK


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.