Gera vef og blað fyrir Eskifjörð: Vilja ýta undir jákvæða stemmingu í bænum

eskfirdingur 0001 webÞremenningarnir Kristinn Þór Jónasson, Magni Þór Harðarson og Ragnar Valgeir Jónsson hófu í mars útgáfu blaðs og vefs fyrir Eskfirðinga. Þeir nota frítíma sinn í vinnuna og stefna að því að auðga mannlífið í bænum.

„Við fórum aðallega út í þetta því okkur leiddist og vantaði hobbí," segja þeir. Útgáfan gengur undir nafninu Eskfirðingur og hóf göngu sína í byrjun mars. Blaðið kemur út mánaðarlega og er með fréttum, greinum og tilkynningum sem tengjast bæjarlífinu á Eskifirði. Samnefndur vefur er síðan reglulega uppfærður.

„Markmið okkar er að vekja upp jákvæða stemmingu í bænum og lífga upp á samfélagið með því að koma því á framfæri sem hér er að gerast. Áherslan er á það jákvæða. Við ætlum ekki að fara að skúbba því hver keyrði á vegg eða að þessi hafi klippt tré nágrannans."

Skipta ábyrgðinni

Þremenningarnir skipta með sér ritstjórastarfinu þannig að einn ber ábyrgð á hverju tölublaði en hinir eru þá með í ritstjórn. „Þetta er fullkomið jafnréttisbræðralag. Þrír er fín tala í svona starfi. Þá eru tveir til að stoppa einn ef hann ætlar að gera eitthvað af sér. Það er líka hægt að láta hann vera ritstjóra og taka glæpinn á sig," útskýra þeir. Þá hafa nemendur úr grunnskóla staðarins einnig lagt til efni, til dæmis spurningu vikunnar þar sem bæjarbúar eru spurðir út í ýmis dagleg álitaefni.

Út eru komin fjögur tölublöð, það síðasta um sjómannadagshelgina en það var tvöfalt og gegndi einnig hlutverki kosningablaðs. Næsta blað er væntanlegt í ágúst. Þeir sjá um alla efnisvinnslu og uppsetningu sjálfir en blaðið er prentað hjá Héraðsprenti á Egilsstöðum. Þeir segjast ánægðir með viðtökurnar sem það hefur fengið.

„Fólk er að taka við sér og er farið að senda okkur greinar að fyrra bragði, sem er draumurinn. Það tekur smá tíma að koma fólki upp á að láta vita af viðburðum og fyrst þurftum við að ýta á eftir fólki að senda inn efni."

Ekki markmiðið að græða

Jafnvel eru dæmi um að aðsendu greinarnar hafi orðið lengri en ráð var fyrir gert. „Við höfum fengið brottflutta til að senda okkur hugrenningar og Guðni Ölversson, sem skrifaði í annað tölublað, gat ekki hamið sig. Tvö hundruð orðin urðu að 1500 og efnið var svo gott að við brugðum á það ráð að stækka blaðið."

Blaðinu er dreift frítt í öll hús og fyrirtæki á Eskifirði en aðrir geta keypt áskrift að því. „Þetta er ekki rekið með gróðavon í huga. Markmiðið er að það verði réttu megin við núllið og það sem verður umfram gefum við til góðra málefna."

Magni, Ragnar og Kristinn stoltir með blaðið. Mynd: GG

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.