Eistnaflug byrjar í kvöld: Versti dagurinn þegar klára þarf púslið
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. júl 2014 14:15 • Uppfært 09. júl 2014 14:18
Rokkhátíðin Eistnaflug verður sett í Neskaupstað með fjölskyldutónleikum þar sem fram koma Svered, Brain Police og Skálmöld. Skipuleggjandi hátíðarinnar segist biðja um gott veður, þá fari allir sáttir heim.
„Þetta er versti dagurinn þegar maður er að klára restina af púslinu. Það er samt allt að smella," segir Stefán Magnússon, skipuleggjandi hátíðarinnar.
„Þetta byrjar með tónleikum fyrir alla. Blíðan er mætt, allir eru sprækir og þetta verður dúndurgaman."
Von er á um 1700 manns og hefur miðasalan gengið sérlega vel. Þeir miðar sem til sölu voru í forsölu í gegnum Miði.is kláruðust. Því var brugðið á það ráð að fækka þeim miðum sem seldir verða á staðnum en fjölgað í forsölunni.
Þekktustu þungarokkssveitir Íslands svo sem Skálmöld, Sólstafir, Dimma og Ham mæta til leiks en þeir síðastnefndu spila á 1-2 tónleikum á ári.
Fimm erlendar sveitir spila á hátíðinni, þeirra stærst At the Gates frá Svíþjóð sem stígur seinust á svið annað kvöld en aðaltónleikarnir eru fimmtudag, föstudag og laugardag.
Léttari bönd finnst inn á milli eins og Jónas Sigurðsson og Ritvélar framtíðarinnar og Retro Stefsson. „Við prófuðum að breyta þessu aðeins. Hrista upp í þessu og gera smá partý en það eru þvílík skrímsli inn á milli."
Maus er ein af sveitunum sem fellur þarna á milli en það er sveit sem lítið hefur spilað síðustu ár. „Þeir spiluðu einu sinni fyrir jól og svo á Secret Solstice um daginn. Ég er búinn að eltast við þá í mörg ár og þeir svöruðu loks jákvætt, ætla að koma og vera frábærir."
Stefán mætti sjálfur austur í Neskaupstað á sunnudag en fyrstu gestirnir mættu til að tjalda í gær. „Þetta verður æðislegt og veðrið er æðislegt. Vonandi hangir hann þurr. Við biðjum ekki um meira."
Mynd: Stebba