LungA sett í fimmtánda sinn
Listahátíðin LungA var sett á sunnudagskvöld í fimmtánda sinn. Leiðbeinendur, listamenn og þátttakendur í listasmiðjunum mættu þá á svæðið tilbúin í vikulangt LungA ævintýri.Formleg dagskrá hófst með opnunartónleikum Pascal Pinon í Bláu kirkjunni og úrslitaleik HM í bíósalnum.
Í vikunni verða fjölbreyttar listasmiðjur ásamt fyrirlestrum, tónleikum, listasýningum og öðrum viðburðum.
Dagskrána má sjá í heild sinni á heimasíðu hátíðarinnar www.lunga.is og miðasala á lokatónleika LungA er hafin á midi.is.
LungA hefur um árabil verið einn helsti menningarviðburður ungs fólks á Íslandi. Ungmenni koma allstaðar að með listsköpun sína í farteskinu eða til að taka þátt í tilraunakenndum listasmiðjum.
Með þátttöku LungA í ungmennaskiptiverkefnum styrktum af Evrópu unga fólksins hafa erlendir hópar fengið tækifæri til að sækja hátíðina heim ásamt því að vinna að verkefnum tengdum ungu fólki í Evrópu.
Í ár taka 64 ungmenni þátt í ungmennaskiptiverkefni í tengslum við hátíðina, hóparnir koma frá Danmörku, Noregi, Bretlandi og munu þau ásamt íslenskum hópi fá tækifæri til þess að taka þátt í listasmiðjum og öðrum viðburðum LungA hátíðarinnar í einstöku umhverfi Seyðisfjarðar.