Kom heim til að sýna leirverk: Sýnir rakúbrennslu á morgun
Helga Unnarsdóttir, leirkerasmiður, stendur fyrir sýningunni „Heima" í Dalshúsi á Eskifirði um þessar mundir. Á morgun geta gestir fylgst með henni rakúbrenna.Þá eru listaverkin sett í tunnuofn og hann hitaður upp með gasi. Þegar glerungur, sem settur er á verkin, er farinn að fljóta og allt orðið glóandi eru hlutirnir teknir úr tunnunni með töng og settir í sag þar sem eldur kviknar. Þá er eldurinn kæfður þannig að sót fer inn í listmuninn í gegnum glerunginn og myndar sprunguáferð.
Helga er fædd og uppalin á Eskifirði og kenndi þar meðal annars í grunnskólanum í þrjú ár. Hún útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1999 og hefur unnið að listsköpun sinni og rekið vinnustofu sína STUDIOos í Seljahverfi síðan.
Sýning Helgu stendur til 16. ágúst og er opin frá 15:00-18:00. Á morgun, miðvikudaginn 13. ágúst, verður hægt að fylgjast með henni rakúbrenna við Dalshús en sýningin er þá opin 10:00-18:00.
Helga sýndi síðast á Eskifirði árið 2000 í grunninum á nýju kirkjunni sem þá var verið að byggja.