Nemendur í ME upp til hópa hamingjusamir
Nemendur í Menntaskólanum á Egilsstöðum eru almennt sáttir við lífið og tilveruna ef marka má niðurstöður rannsóknar sem tveir nemendur gerðu í vor. Þær ítreka þó að huga verði líka að þeim sem líður verr í skólanum.Þær Katla Einarsdóttir og Marta Magdalena Baginska gerðu könnunina í rannsóknaráfanga. Hugmyndina fengu þær í öðrum áfanga þar sem þær voru fræddar um að íbúar í Bútan væru þeir hamingjusömustu í heimi. „Okkur langaði að rannsaka hamingjuna í ME og gera eitthvað nýtt."
Þær lögðust í rannsóknarvinnu á forsendum hamingjunnar og flokkuðu þær niður í fjóra þætti: sjálfsímynd, fjármál og menntun, félagslíf og lífstíl og heilsu. Spurningarnar voru 34 og skipt upp eftir þáttunum. Könnunin var lögð fyrir á netinu og svöruðu 150 af 257 skráðum nemendum í skólanum henni.
„Við keyptum okkur aðgang að SurveyMonkey og gerðum þetta mjög fagmannlega. Það kostaði okkur 2000 kall úr eigin vasa en við höndlum það."
Meðal þess sem nemendurnir töldu skipta mestu máli var að eiga vini og hafa gott samband við foreldra sína. Þá kemur fram að 85% nemendanna líti björtum augum fram á veginn. Í einni spurningunni voru nemendur beðnir að meta á skalanum 1-10 hversu hamingjusamir þeir væru. Alls gáfu 65% svarenda svör á bilinu 8-10 en 7,5% á bilinu 1-3. Þær minna á að líka verði að muna eftir þeim sem líður verr.
„Við fengum líka mjög sterk neikvæð svör og dæmi þar sem fólk virtist vera að glíma við geðraskanir eða önnur vandamál, einkum sem tengdust sjálfsímyndinni. Þeim má ekki gleyma þótt heilt yfir hafi svörin verið jákvæð."