Austfirðingar himinlifandi með veðrið í sumar
Íbúar á Norður- og Austurlandi eru ánægðastir Íslendinga með veðurfarið í sumar að því er fram kemur í nýrri könnun.Af þeim sem tóku afstöðu í könnun MMR voru 92,4% íbúa á Norður- og Austurlandi ánægðir með veðrið í sumar.
Töluverður munur er á milli landshluta. Um 45% íbúa á Norðvestur- og Vesturlandi og Suðurlandi eru ánægðir með veðrið í sumar en hlutfallið fer niður í 33-37% í Reykjavík og nágrenni.
Á landsvísu voru 45% þeirra sem svöruðu ánægðir með sumrið, sem er nokkru lægra en síðustu ár. MMR hefur kannað ánægju Íslendinga með sumarveðrið frá árinu 2010 en það ár og 2012 var ánægjan á landsvísu um eða yfir 95%.
Könnunin var gerð í síðustu viku. Úrtakið var handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR, 18 ára og eldri. Niðurstöðurnar byggjast á 945 svörum.