Besti staðurinn á landinu utan lokunarsvæðis til að sjá eldgosið
Gott útsýni er yfir eldgosið í Holuhrauni af fellunum í kringum Snæfell. Mynd sem staðarhaldari í Laugarfelli tók í gærkvöldi hefur vakið mikla athygli í dag.„Það hefur verið þokkalega hringt, bæði frá ferðaskrifstofum og einstaklingum til að spyrja hvar ég hafi tekið myndina," segir Páll Guðmundur Ásgeirsson, staðarhaldari Laugarfells Highlands Hostels.
Hann gekk í gærkvöldi á Vestari Sauðahnjúk sem er vestur af Snæfelli. „Þetta er besti staðurinn á landinu utan lokunarsvæðis," segir hann um útsýnið af hnjúknum.
Um klukkustundarakstur er frá Egilsstöðum upp að Laugarfelli og þaðan hálftímaferðalag í viðbót inn að og framhjá Snæfellsskála og inn að hnjúknum. Seinni hluti leiðarinnar er aðeins fær fjórhjóladrifnum bílum.
Við hnjúkinn er bílastæði og upp á hann „þægileg ganga" með um 200 metra hækkun. Mynd Páls var tekin rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi en útsýnið yfir gosið er best í ljósaskiptunum. Ætli menn að bíða svo lengi ráðleggur Páll fólki að hafa vasaljós meðferðir til að komast klakklaust niður aftur.
Hann segist ekki bjóða sjálfur upp á ferðir á hnjúkinn en ferðaþjónustuaðilar séu að setja saman pakkaferðir sem innihaldi meðal annars gistingu í Laugarfelli.
Gosið sést víðar af svæðinu en útsýnið af Sauðahnjúknum er það besta. Á Fljótsdalsheiði sést gosmökkurinn en ekki eldgosið sjálft og því ekki nóg að keyra bara leiðina inn í Kárahnjúka.
Fleiri glæsilegar myndir hafa verið teknar af Sauðahnjúknum. Mynd sem sýnir norðurljós og eldgosið og farið hefur víða á samfélagsmiðlum var til dæmis tekin þaðan.
Eldgosið séð af Vestari Sauðahnjúk. Mynd: Páll Guðmundur Ásgeirsson