Besti staðurinn á landinu utan lokunarsvæðis til að sjá eldgosið

holuhraun laugarfell palli webGott útsýni er yfir eldgosið í Holuhrauni af fellunum í kringum Snæfell. Mynd sem staðarhaldari í Laugarfelli tók í gærkvöldi hefur vakið mikla athygli í dag.

„Það hefur verið þokkalega hringt, bæði frá ferðaskrifstofum og einstaklingum til að spyrja hvar ég hafi tekið myndina," segir Páll Guðmundur Ásgeirsson, staðarhaldari Laugarfells Highlands Hostels.

Hann gekk í gærkvöldi á Vestari Sauðahnjúk sem er vestur af Snæfelli. „Þetta er besti staðurinn á landinu utan lokunarsvæðis," segir hann um útsýnið af hnjúknum.

Um klukkustundarakstur er frá Egilsstöðum upp að Laugarfelli og þaðan hálftímaferðalag í viðbót inn að og framhjá Snæfellsskála og inn að hnjúknum. Seinni hluti leiðarinnar er aðeins fær fjórhjóladrifnum bílum.

Við hnjúkinn er bílastæði og upp á hann „þægileg ganga" með um 200 metra hækkun. Mynd Páls var tekin rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi en útsýnið yfir gosið er best í ljósaskiptunum. Ætli menn að bíða svo lengi ráðleggur Páll fólki að hafa vasaljós meðferðir til að komast klakklaust niður aftur.

Hann segist ekki bjóða sjálfur upp á ferðir á hnjúkinn en ferðaþjónustuaðilar séu að setja saman pakkaferðir sem innihaldi meðal annars gistingu í Laugarfelli.

Gosið sést víðar af svæðinu en útsýnið af Sauðahnjúknum er það besta. Á Fljótsdalsheiði sést gosmökkurinn en ekki eldgosið sjálft og því ekki nóg að keyra bara leiðina inn í Kárahnjúka.

Fleiri glæsilegar myndir hafa verið teknar af Sauðahnjúknum. Mynd sem sýnir norðurljós og eldgosið og farið hefur víða á samfélagsmiðlum var til dæmis tekin þaðan.

Eldgosið séð af Vestari Sauðahnjúk. Mynd: Páll Guðmundur Ásgeirsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.