Útsýnisflug yfir eldgosið frá Egilsstöðum: Gaman að geta boðið upp á þetta
![eldgos flug 0387 web](/images/stories/news/2014/holuhraun/eldgos_flug_0387_web.jpg)
„Það er gaman að geta boðið upp á þetta," segir Þór Ragnarsson hjá Ferðaskrifstofu Austurlands. Samstarf er á milli skrifstofunnar og eiganda flugvélarinnar um ferðirnar en Þráinn Hafsteinsson flugmaður flýgur.
Byrjað var að fljúga á föstudag og er farið í loftið 11:30, 14:30 og 17:30. Fjórir farþegar komast í hverja ferð.
Um hálftíma flug er frá Egilsstöðum á gosstöðvarnar og er sveimað yfir þeim í um hálftíma áður en haldið er heim á leið þannig að ferðin tekur í heild sinni einn og hálfan tíma.
Veðrið ræður öllu en útsýnið hefur verið gott um helgina. „Það hefur ekkert klikkað og allir eru ofboðslega ánægðir."
Boðið er upp á ferðir yfir gosið víðar, meðal annars frá Mývatni en þeir sem hafa viljað selja ferðir frá Reykjavík hafa lent í vandræðum vegna slæms skyggnis þar.
Þór segir það fyrst og fremst erlenda ferðamenn sem nýtt hafa sér flugið. „Þetta eru 99% útlendingar. Ég tek á móti þeim við lendinguna og þeir brosa allan hringinn."
Þannig var reyndin um áströlsk hjón sem Austurfrétt hitti að loknu flugi í hádeginu í dag. „Þetta er eitthvað sem maður upplifir bara einu sinni á ævinni."
Þau bættu líka við að það hefði verið allt annað að kynnast landinu úr lofti heldur en af þjóðveginum en þau hafa verið í tveggja vikna hringferð um landið.
![eldgos flug 0066 web](/images/stories/news/2014/holuhraun/eldgos_flug_0066_web.jpg)
![eldgos flug 0177 web](/images/stories/news/2014/holuhraun/eldgos_flug_0177_web.jpg)
![ivar hrefna hilmar jon eldflug hg web](/images/stories/news/2014/holuhraun/ivar_hrefna_hilmar_jon_eldflug_hg_web.jpg)