Franski spítalinn fékk menningarverðlaun SSA
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. sep 2014 11:54 • Uppfært 22. sep 2014 11:55
Minjavernd hlaut um helgina menningarverðlaun Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA), sem veitt voru á aðalfundi sambandsins á Vopnafirði, fyrir endurbyggingu Franska spítalans á Fáskrúðsfirði.
Verðlaunin eru veitt árlega einstaklingi, stofnun eða samtökum á Austurlandi fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar á liðnu starfsári SSA.
Að þessu sinni var það Minjavernd sem hlaut viðurkenningu fyrir endurbyggingu Franska spítalans sem lauk í sumar. Verkefnið nær reyndar yfir endurbyggingu fjögurra húsa sem tengjast veru franskra sjómanna á Fáskrúðsfirði um aldamótin 1900.
Fosshótel leigir hluta húsanna undir hótel og Fjarðabyggð annan hluta undir sýningu um veiðar Frakka. Þá er eitt húsið kapella sem vígð hefur verið á ný.
Mynd: Pétur Sörensen