Fjarðabyggð í Útsvari í kvöld: Mætum með ungt og hresst lið
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 31. okt 2014 13:11 • Uppfært 31. okt 2014 13:39
Kynslóðaskipti hafa orðið í liði Fjarðabyggðar í spurningaþættinum Útsvari sem mætir til leiks í kvöld. Mikil stemming er í herbúðum mótherjanna úr Ásahreppi sem efna til rútuferðar í sjónvarpið.
Jón Svanur Jóhannsson, kennari á Eskifirði, er sá eini sem heldur áfram frá í fyrra en fær nú með sér Guðjón Björn Guðbjartsson, nema úr Neskaupstað og Ölmu Sigurbjörnsdóttur, matreiðslumann frá Reyðarfirði.
Liðið kom suður í gær en ekkert hefur verið flogið milli Reykjavíkur og Egilsstaða í morgun. Deginum hefur verið eytt í leik og undirbúning fyrir keppnina.
Mótherjar kvöldsins eru Ásahreppur, minnsta sveitarfélagið sem tekur þátt í ár. Íbúar eru þar skráðir 193 og þar af hafa 30 skráð sig í rútuferð sem sveitarfélagið stendur fyrir í sjónvarpssal.
„Það er mikil stemming hinum megin en okkar markmið er að komast áfram og skemmta okkur og öðrum í leiðinni," segir Jón Svanur.
Hann segir Fjarðabyggðarliðið vel stemmt fyrir keppnina í kvöld. „Okkur líst vel á viðureignina. Við erum með ungt og hresst lið sem er tilbúið í slaginn."