Sesselja Bára vann söngkeppni austfirskra félagsmiðstöðva
Sesselja Bára Jónsdóttir, fulltrúi Knellunnar á Eskifirði, sigraði í söngkeppni SamAust. Í hönnunarkeppninni Stíl báru fulltrúar Þrykkjunnar á Höfn sigur úr býtum.Hátíðin fór fram í Egilsbúð í Neskaupstað á föstudaginn var. Veg og vanda af skipulagningu hafði félagsmiðstöðin Atóm, en hátíðina sóttu yfir 300 ungmenni frá 12 félagsmiðstöðvum á Austurlandi, allt frá Höfn í Hornafirði í suðri að Vopnafirði í norðri.
Hæfileikakeppni skipaði að vanda stóran sess, með undankeppi í annars vegar söngkeppni Samfés og hins vegar Stíl, hönnunarkeppni samtakanna, en í báðum tilvikum er keppt um þátttökurétt í lokakeppni.
Alls kepptu 13 söngatriði og var mjótt á munum í þessari mjög svo jöfnu keppni. Að lokum fóru leikar svo, að Sesselja Bára sigraði með flutningi á „Heyr mína bæn" og hefur hún því áunnið sér þátttökurétt í lokakeppni Samfés sem fram fer í Laugardalshöll á næsta ári.
Þar keppa 30 atriði af landinu öllu til úrslita, auk þess sem veitt eru sérstök verðlaun fyrir besta frumsamda textann á íslensku.
Í öðru sæti var Valný Lára Jónsdóttir, frá Nýjung á Egilsstöðum, sem flutti lagið „Shontelle" eða „Ógleymanlegt", en textann íslenskaði hún sjálf. Í þriðja sætinu voru þau Lára Snædal, sem er einnig frá Nýjung á Egilsstöðum og Sigurjón Trausti, Afreki í Fellabæ, með frumsamið lag sem nefnist „Sólarlag".
Dómarar voru þeir en þeir voru Sigurjón Egilsson, hetjutenor, Elsa Sigrún Elísdóttir, stórsöngkona og Idol-stjarnan Hrafna Hanna Elísa.
Í hönnunarkeppni sigruður þær Malín Ingadóttir, Margrét Líf og Hafdís Rut, allar frá Þrykkjunni á Höfn, en lokakeppni Stíls fer fram í Hörpu um næstu helgi.
Tækni var að þessu sinni þema keppninnar, sem var einnig bæði jöfn og spennandi, en til leiks voru skráð tíu afar vel útfærð atriði.
Í öðru sæti voru Dagný Sól, Elísabet Eir, Anna Björg og Amila, sem tóku þátt fyrir hönd Hellisins á Fáskrúðsfirði. Þriðja sætinu náðu svo Ragnheiður Inga, Ástrós Aníta og Ingibjörg María, sem eru eins og sigurvegararnir einnig frá Þrykkjunni.
Í dómnefnd hönnunarkeppninnar áttu sæti Hákon Guðröðarson, tískufrömuður, Guðrún Smáradóttir, stílisti og Rósa Dögg Þórsdóttir, hárgreiðslumeistari.