Selja kærleikskúlur og jólaóróa til að safna fyrir lyftu í sundlaugina
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 05. des 2014 10:49 • Uppfært 05. des 2014 10:51
Soroptimistaklúbbur Austurlands stendur á aðventunni fyrir árlegri sölu á kærleikskúlum og jólaóróum frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Að þessu sinni er markmiðið að safna fyrir lyftu í sundlaugina á Egilsstöðum.
Ár hvert fær Kærleikskúlan nýtt útlit og er verkið í höndum fremstu listamanna þjóðarinnar. Að þessu sinni ber kúlan heitir „mandarína" og er gerð af Davíð erni Halldórssyni.
Giljagaur er níundi óróinn í Jólasveinaseríu styrktarfélagsins. Í seríunni fara saman íslenskur menningararfur, íslensk hönnun og ritsnilld ásamt mikilsverðu málefni. Þau Bubbi Morthens og Linda Björg Árnadóttir leggja félaginu lið í ár og sameina hér krafta sína í túlkun á Giljagaur.
Soroptimistaklúbbur Austurlands kemur nú að þessu verkefni í níunda sinn og hafa Austfirðingar verið tryggir kaupendur. Klúbburinn fær 1000 krónur af hverjum seldum grip og er ágóðinn notaður í þágu fatlaðra barna á heimaslóðum.
Hann hefur til dæmis verið nýttur til tækjakaupa fyrir sjúkraþjálfun og til kaupa á ýmiskonar hjálpartækjum fyrir einstaklinga. Einnig hefur sjóðurinn styrkt einstakling til þátttöku á vetrarólympíuleikum fatlaðra.
Selt verður í Húsasmiðjunni á Egilsstöðum í dag og á morgun og á jólamarkaði Barra laugardaginn eftir viku og í Húsasmiðjunni daginn eftir.