Stanley Tucci: Fortitude er stórkostlegt sjónarspil
![fortitude poster1](/images/stories/news/2014/fortitude_misc/fortitude_poster1.jpg)
„Þetta er stórkostlegt sjónarspil," sagði Stanley Tucci við frumsýningu á þáttunum í Lundúnum í síðustu viku.
„Jafnvel þótt ég kunni handritið þá langar mig að sjá meira. Samspil persónanna er flókið og áhugavert."
Tucci fer með hlutverk rannsóknarlögreglumanns sem sendur er til Fortitude til að rannsaka morðmál. Honum er hins vegar ekki tekið opnum örmum þar.
„Hann reiknar með auðveldu máli í litlu samfélagi en kemur inn í heim sem hann hefur ekki séð áður þar sem venjulegar reglur gilda ekki."
Aðrir leikarar sögðu handritið hafa verið svo flókið á köflum að þeir hefðu þurft að hjálpast að við að útskýra það hver fyrir öðrum. Þá hafi það tekið breytingum á meðan tökum stóð.
„Það er ekki auðvelt að skrifa trúverðugt handrit með svona fjölbreyttar persónur, hvað þá að taka tillit skoðana 20 leikara!" segir Tucci.
Christopher Eccelstone segir umhverfið hafa hjálpað til við gerð þáttanna. „Þetta eru persónur sem valið hafa að búa í dramatísku umhverfi sem er mjög gagnlegt við gerð svona þáttar."
Verkefnið er hið metnaðarfyllsta sem Sky hefur ráðist í á sviði leikins efnis og stjörnum prýtt leikaraliðið hefur vakið mikla athygli. Framleiðandinn Patrick Spence sagði það hafa hjálpað hversu fljótt Michael Gambon, sem meðal annars er þekktur sem prófessor Dumbledore úr Harry Potter, skrifaði undir samning. Aðrir hafi fylgt í kjölfarið.
Sjálf gerði Gambon grín að aðkomu sinni að þáttunum. „Ég dregst að hvaða hlutverki sem mér býðst.... þegar leikrit eða kvikmynd er að baki fer maður strax að horfa eftir næsta hlutverki. Þannig hefur það alltaf verið.
Dag einn barst mér þetta handrit, ég las það yfir og sagði: „Ég skal leika í þessu." Þetta er ósköp einfalt."
Átta dagar eru þar til þættirnir, sem að miklu leyti voru teknir upp í Fjarðabyggð, verða frumsýndir í bresku og bandarísku sjónvarpi.