Tveir Austfirðingar í framboði í kosningum til Stúdentaráðs
![roskva 2015](/images/stories/news/2015/roskva_2015.jpg)
„Það er erfitt að meta það úr hringiðjunni hvernig baráttan gengur en við teljum hana gagna vel. Við erum búin að vera dugleg enda með glæsilega frambjóðendur sem mynda flotta lista," segir Ásta Hlín Magnúsdóttir, kosningastjóri Röskvu.
Yngri systir hennar, Inga Sæbjörg, skipar 5. sæti á heilbrigðisvísindasviði. Hún er á þriðja ári í lyfjafræði og hefur verið formaður nemendafélagsins. Þær koma frá Fáskrúðsfirði.
Eskfirðingurinn Emma Björk Hjálmarsdóttir er síðan varmaður á hugvísindasviði en hún er á öðru ári í listfræði.
Í samtali við Austurfrétt sagði Ásta Hlín að helsta áherslumál Röskvu væri jafnrétti til náms.
„Það er rauði þráðurinn í okkar stefnu og við erum ekki hrædd við að vera róttæk í okkar hagsmunabaráttu.
Við höfum verið í minnihluta í stúdentaráði undanfarin ár og hefðum oft á tíðum viljað sjá stúdentaráð vera virkara og róttækara í baráttunni," segir hún.
„Til dæmis má nefna gífurlega hækkun skrásetningargjalda undanfarinn ár, en þau hafa hækkað úr 45 þúsund krónum árið 2011 í 75 þúsund í dag. Við hefðum viljað sjá stúdentaráð mótmæla þessum hækkunum mun harðar.
Þá má nefna að núna í vetur þegar lægsta virðisaukaskattsþrepið var hækkað heyrðist ekkert í stúdentaráði, en verðhækkun á bæði bókum og matvörum kemur sér auðvitað sérstaklega illa fyrir stúdenta."
Kosið er á miðvikudag og fimmtudag. Kosningarétt hafa allir skráðir nemendur í Háskóla Íslands.