Glanni glæpur og biskupinn: Sönn vinátta og trylltur dans

vinavikuferd kyrosÆskulýðsmót kirkjunnar á Norður- og Austurlandi verður haldið á Vopnafirði helgina 13. – 15. febrúar. Mótið er ætlað unglingum í 8.-10. bekk og eldri, sem taka þátt í æskulýðsstarfi kirkjunnar sinnar, en einnig verða biskup Íslands og Glanni glæpur áberandi á svæðinu.

Gert er ráð fyrir um 70 þátttakendum auk þeirra skötuhjúa. Yfirskrift mótsins er vináttan. Í samverustundum og helgihaldi á mótinu verður unnið með guðspjallstextann: „Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður." (Jh. 15.14).

Vel fer á því að mótið fari fram á Vopnafirði að þessu sinni, en þar er árleg Vinavika með fjölbreyttri dagskrá orðin fastur liður í menningarlífi bæjarins. Það er æskulýðsfélag kirkjunnar sem stendur fyrir Vinavikunni. Tilgangurinn er að minna á hin sönnu verðmæti lífsins; vináttuna og kærleikann. Bæjarbúar taka almennt virkan þátt í Vinavikunni.

Á mótinu verður boðið upp á ýmiss konar fræðslu og afþreyingu s.s. sund, diskótek o.fl. Í hópastarfinu verðuð iðkuð leiklist, tónlist, myndlist, unnið að kristilegri umhverfisvitund undir leiðsögn Breytenda (www.changemaker.is), vöfflur verða bakaðar og margt fleira.

Megináherslan er þó lögð á fræðslu um vináttu og hvað í því felst að vera sannur vinur. Stefán Karl Stefánsson leikari sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt sem Glanni glæpur í Latabæ og sr. Davíð Þór Jónsson, héraðsprestur í Austurlandsprófastsdæmi, munu annast þá fræðslu. Stefán Karl er einmitt stofnandi Regnbogabarna, samtaka gegn einelti.

Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir setur mótið föstudaginn 13. febrúar. Þann dag verður einnig dansað gegn kynbundnu ofbeldi um allan heim undir yfirskriftinni „Milljarður rís". Hver veit nema biskup Íslands fáist til að leiða norðlensk og austfirsk ungmenni í trylltum dansi í þágu þess góða málstaðar sem einmitt fellur svo vel að þema mótsins?

Hvað sem öllu líður er ljóst að það verður nóg á seyði á Vopnafirði um helgina. Kristilegur náungakærleikur og vinarþel munu svífa yfir vötnunum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.