Skip to main content

Hárið: Meira en bara kynsvall og eiturlyf

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. feb 2015 18:40Uppfært 20. feb 2015 18:41

harid va 0019 webSýningum Djúpsins, leikfélags Verkmenntaskóla Austurlands, á söngleiknum Hárinu lýkur um helgina. Æfingarnar áttu hug og hjörtu leikaranna á meðan þeim stóð.


„Við byrjuðum að æfa í nóvember og í janúar voru stanslausar æfingar. Þetta var rosalega erfitt en rosalega gaman," segir Tristan Theodórsson formaður leikfélagsins.

„Þetta er búinn að vera einn og hálfur mánuður af stanslausri vinnu. Við höfum lítinn tíma haft fyrir annað," segir Fannar Þórarinsson sem fer með eitt af aðalhlutverkunum.

Hópurinn sem kom að verkinu telur um 30 manns og segir Tristan að samvinnan hafi gengið vel. „Hópurinn lifði sig vel inn í verkið," segir Tristan.

Sýningin er tíu ára afmælissýning leikfélagsins sem setti fyrst upp sýningu árið 2005. Tristan segir að hópurinn hafi verið búinn að skoða 2-3 önnur atriði áður en Hárið varð fyrir valinu.

Hárið er þekkt fyrir opinskátt umtal um eiturlyfjanotkun og kynlíf og handritið inniheldur nektaratriði sem gjarnan er talað um.

Leikarnir voru ófáanlegir til að gefa upp hvernig atriðið er leyst og Tristan minnti á að verkið snýst um fleira.

„Þegar rýnt er í verkið sést að það fjallar mikið um Víetnamstríðið en ekki bara kynsvall og eiturlyf."

Síðustu sýningar eru í kvöld og annað kvöld. Nánar var skyggnst inn á sýninguna og rætt við leikara í Glettum á sjónvarpsstöðinni N4 sem frumsýndar voru í gærkvöldi. Þáttinn í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.