Skip to main content

Austfirskt tríó á einni stærstu tónlistarhátíð Noregs

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. mar 2015 14:14Uppfært 05. mar 2015 14:15

fura airwavesHljómsveitin Fura er á leið á norsku tónlistarhátíðina By:Larm sem er ein sú þekktasta þar í landi. Þrjár íslenskar sveitir koma fram á hátíðinni sem hófst í gærkvöldi.


Hljómsveitin Fura er tríó sem samanstendur af þeim Björt Sigfinnsdóttur, söngkonu frá Seyðisfirði og tvíeyki úr Bloodgroup, Halli Jónssyni frá Egilsstöðum og Janusi Rasmussen frá Færeyjum .

Þau verða ein þriggja íslenskra hljómsveita sem leika á bransatónlistarhátíðinni By:Larm í Osló í Noregi um helgina. Hátíðin er tvískipt. Festival og ráðstefna. Megintilgangurinn er að kynna eftirsótta listamenn sem eru á barmi velgengninnar, ýmist í heimalandinu eða á alþjóða vettvangi.

Plata er væntanleg frá sveitinni en hún hefur gefið út tvö lög, Poems of the past og Demons. Hún lék á Airwaves tónlistarhátíðinni síðasta haust við afar góðar undirtektir.

Fura er á meðal 10 norrænna hljómsveita sem getið er sérstaklega á the Nordic Playlist, sem gefinn er út vikulega, og er í þessari viku tileinkaður hátíðinni.

Í kynningu á Furu fyrir hátíðina segir meðal annars: „Örugg, dýrindis silkiröddin er nostursamlega ofin saman við rafrænan bakgrunn. Hin íslenska Fura ástríðufullt og spennandi nýtt samstarfsverkefni fjölbreytts og spennandi hæfileikafólks."