Rokkað á Bræðslunni í sumar
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. mar 2015 16:02 • Uppfært 13. mar 2015 16:03
Rokksveitirnar Ensími og Dimma eru meðal þeirra sem troða munu upp á Bræðslunni í sumar. Dagskrá hátíðarinnar var kynnt í morgun.
Hátíðin er kennd við stórtónleika sem haldnir eru laugardaginn 25. júlí en fjölbreytt dagskrá verður á Borgarfirði alla vikuna þar á undan.
Svo virðist sem þyngra rokk en oft áður verði á boðstólnum á Bræðslunni en þungarokkssveitin Dimma vegur þar þyngst. Hún hefur að undanförnu spilað undir fyrri Bubba Morthens sem flutt hefur lög Das Kapital og Utangarðsmanna. Bubbi kemur sjálfur í fyrsta sinn fram á Bræðslunni í sumar.
Ensími naut mikilla vinsælda í kringum aldamótin, lagðist svo í dvala en hefur tekið upp þráðinn síðustu misseri og kemur austur.
Prins Póló úr Berufirði, sem hlaut nýverið íslensku tónlistarverðlaunin, mætir á Bræðsluna og eins Lára Rúnars ásamt sínu föruneyti. Valdimar hefur verið viðloðandi Borgarfjörð síðustu ár og verður á stóra sviðinu í sumar.
Miðasala hefst á miðvikudag en í tilkynningu aðstandenda kemur fram að „mjög takmarkaður fjöldi" sé í boði og þeim verði „ekki fjölgað." Í fyrra seldist upp á hátíðina á einum degi.