Fyrsta platan frá Dútl: Góður grautur með sérviskulegum blæ
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 17. mar 2015 14:32 • Uppfært 17. mar 2015 14:34
Hljómsveitin Dútl vinnur nú að upptökum sinnar fyrstu plötu sem áætluð er að komi út í apríl. Sveitina skipa þeir Jón Hilmar Kárason, Þorlákur Ægir Ágústsson og Orri Smárason sem allir eru búsettir í Neskaupstað.
„Við höfum spilað saman sem hljómsveitin Dútl í eitt og hálft ár, en höfum heilmikið starfað saman í gegnum tíðina," segir gítarleikarinn Jón Hilmar.
Platan heitir Ideas & Secrets. Tónlistin er frumsamin og lýsir Jón Hilmar henni sem „instrúmental seventís fönki", undir áhrifum frá blús og rokki.
„Þetta er góður grautur með sérviskulegum blæ. Fólk ætti að geta dillað sér aðeins með."
Upptökur hafa farið fram í Dalshúsi á Eskifirði sem Jón Hilmar lýsir sem góðum stað til tónlistarflutnings.
„Það er svo auðvelt að taka upp í dag, menn geta nánast gert það hvar sem er. Það hefur verið ánægjulegt að vinna í Dalshúsi, húsið er skemmtilegt og hljómburðurinn þar er mjög góður."
Aðspurður hvort ekki sé erfitt að standa að útgáfu geisladiska í dag þar sem tónlistarflutningur hefur að stórum hluta flust á veraldrarvefinn, segir Jón Hilmar:
„Sala tónlistar hefur vissulega dregist saman, en það er alltaf ákveðinn hópur sem vill kaupa diska. Þess utan þarf alltaf að taka upp efni til þess þá að koma henni á netmiðla."
Tónlistarunnendur geta farið að hlakka til sumarsins en Dútlararnir áætla að vera með tónleika til þess að kynna frumraun sína.