Hamingjan er hér: 720 gráður – Listaverkasmiðja hefst á Borgarfirði á föstudag
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 19. mar 2015 13:37 • Uppfært 19. mar 2015 13:46
Það verður mikið líf og fjör á Borgarfirði næstu daga, en Listaverkasmiðjan 720 gráður hefst á morgun.
„720 gráður – Listaverkasmiðja er verkefni sem höfum unnið að í vetur og er nú loksins að verða að veruleika. Að verkefninu standa fyrirtækið Já Sæll ehf., tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson og Ása Berglind Hjálmarsdóttir," segir Hafþór Snjólfur Helgason, einn af skipuleggjendum.
„Á leiðinni eru tíu frábærir tónlistarmenn sem ætla að dvelja hjá okkur á Borgarfirði í góðu yfirlæti út mánuðinn. Hér fá þeir tækifæri til að kúpla sig frá hversdagsleikanum, sækja innblástur, slappa af, njóta og skapa. Við sjáum þeim fyrir gistingu, aðstöðu og afþreyingu sem vonandi verður til þess að ný og skemmtileg tengsl myndast innan hópsins og við Borgarfjörð."
Almenningur fær svo tækifæri til að njóta afraksturs, en efnt verður til uppskeruhátíðar í Fjarðarborg laugardaginn 28. mars. „Við hvetjum fólk til þess að taka daginn frá, en ég fullyrði að þetta verður alveg stórkostlegt. Hamingjan er hér!"