Skip to main content

Viltu upplifa sólmyrkvann úr 850 metra hæð? - Veðurspáin er hagstæð

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. mar 2015 14:51Uppfært 19. mar 2015 15:08

Sólstaða OddsskarðiOpið verður í Skíðamiðstöðin í Oddsskarði á morgun milli klukkan 08:30 og 11:00 í tilefni sólmyrkvans.



Sólmyrkvinn sést best á Austurlandi eða 99,4%. Því má gera ráð fyrir að aðstaðan í Oddsskarði verði einstök til að fylgjast með þessu sjaldgæfa sjónarspili náttúrunnar.

Það má sjá sólmyrkvann úr allt að 850 metra hæð af skarðinu, með glæsilegu útsýni yfir Gerpissvæðið og Atlantshafið. Deildarmyrkvinn hefst klukkan 08:41 miðað við Norðfjörð og lýkur 10:46.

Dagfinnur Ómarsson, forstöðumaður skíðamiðstöðvarinnar, segist finna fyrir töluverðum áhuga á viðburðinum og veðurspáin sé hagstæð. „Það á að vera þunnskýjað eða bjart, spáin er alltaf að batna. Þegar myrkvinn verður í hámarki verður sólin beint ofan við Skrúð frá okkur séð. Við hvetjum fólk til þess að renna í Skarðið ef það vill komast hærra upp til að upplifa myrkvann."

Hægt verður að skíða á svæðinu meðan á myrkvanum stendur. Stóru lyfturnar á skíðasvæðinu verða opnar upp í topp og veitingasalan einnig opin.

Dagfinnur minnir á notkun sólmyrkvaglerauga, en án viðeigandi hlífðarbúnaðar getur það valdið varanlegum augnskaða að horfa á sólina. „Við eigum nokkur stykki eftir sem við seljum á kostnaðarverði," segir Dagfinnur.

Ljósm: Dagfinnur Ómarsson