Framleiðandi Fortitude: Aðstæður fyrir tökurnar voru skelfilegar
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. mar 2015 08:21 • Uppfært 22. mar 2015 08:22
Patrick Spence, yfirframleiðandi Fortitude þáttanna, segir tökuliðið hafa lent í gríðarlegum vandræðum vegna snjóleysis í fyrra. Upphaflega var handritið skrifað sem kvikmynd en flækjustig þess og aðdáun handritshöfundarins á Twin Peaks varð til þess að breyta því.
„Aðstæður voru skelfilegar fyrir tökurnar," er haft eftir Patrick í viðtali við Huffington Post þar sem hann viðurkennir að flytja hafi þurft inn snjó frá London til Reyðarfjarðar fyrir þær.
„Við fengum hins vegar nóg af rigningu og hún var stundum lárétt, það snjóaði bara aldrei."
Í viðtalinu skýrir Patrick einnig frá því að fyrst hafi handritið verið skrifað fyrir kvikmynd. Það var hins vegar of flókið.
„Það voru 25 karakterar sem komu fyrir oftar en einu sinni og ég áttaði mig á að við gætum ekki gert slíkri sögu skil á 120 mínútum. Meiri tími myndi gera okkur kleift að segja sögu þessara karaktera á flóknari en innihaldsríkari hátt."
Það var hins vegar lítið mál að sannfæra handritshöfundinn Simon Donald sem var mikill aðdáandi Twin Peaks þáttanna.
„Þeir höfðu mikil áhrif á Simon. Hans hugmynd var að segja sögu úr smáþorpi sem væri erfitt að staðsetja úti í auðninni."
Dómar um þættina hafa batnað eftir því sem liðið hefur á sýningar þeirra en viðbrögðin voru blendin í fyrstu. Enn hefur þó ekkert verið ákveðið um næstu þáttaröð.