Skip to main content

Austurland að Glettingi: Nokkurskonar hraðstefnumót milli gesta og ferðaþjónustuaðila

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. mar 2015 14:01Uppfært 23. mar 2015 17:51

Austurland að Glettingi webFerðasýningin Austurland að Glettingi verður haldin í Fjarðabyggðahöllinni á Reyðarfirði á föstudaginn. Þar gefst almenningi kostur á að upplifa svæðið á óvenjulegan hátt og kynna sér hvað ferðaþjónustan á svæðinu hefur upp á að bjóða.



Austurbrú sér um skipulagningu og utanumhald sýningarinnar og verkefnastjóri er María Hjálmarsdóttir.

„Verkefnið kom til vegna þess að SAF (Samtök ferðaþjónustunnar) halda aðalfund sinn á Egilsstöðum á fimmtudaginn og því var ákveðið að nýta tækifærið og blása til austfirskrar ferðakynningar, einskonar mannamóts á Austurlandi," segir María.

Annað form verður á sýningunni en venja er. Útlínur Austurlands verða mótaðar í gervigrasið í höllinni með köðlum frá fyrirtækinu Egersund. Hvert og eitt ferðaþjónustufyrirtæki verður svo staðsett þar sem það er landfræðilega.

„Það má segja að þetta sé byggt upp sem nokkurskonar „speed-dating" eða hraðstefnumót milli gesta og ferðaþjónustuaðila. Gestir ferðast á puttanum milli staða og hitta fyrir ferðaþjónustuaðila og kynna sér upp á hvað þeir hafa að bjóða."

38 ferðaþjónustuaðilar kynna starfsemi sína

María er ánægð með þátttöku ferðaþjónustuaðila, en alls hafa 38 fyrirtæki skráð sig til leiks.

„Það er alveg frábært. Markmiðið okkar var 30 fyrirtæki, en á venjulegum ferðasýningum héðan að austan hafa verið um 17 aðilar.
Það er mikilvægt að sýna það sem fjórðungurinn hefur upp á að bjóða og opna þannig möguleika á samstarfi við ferðaþjónustuaðila annarsstaðar. Einnig hugsum við þetta sem góða æfingu því við stefnum að því að bjóða erlendum ferðaþjónustuaðilum til okkar fljótlega.

Umgjörðin verður hvorki mikil eða dýr, en útfærslan verður skemmtileg. Það verður margt spennandi sem kemur á óvart sem ég vil ekki segja frá. Sýningin er opin almenningi milli klukkan 14 og 17 og fólk verður einfaldlega að koma og sjá, en það kostar ekkert inn. "