Skip to main content

Tíu ár síðan ME komst jafn langt í MORFÍS

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. mar 2015 08:44Uppfært 24. mar 2015 08:47

me morfis webLið Menntaskólans á Egilsstöðum mætir í kvöld liði Verslunarskóla Íslands í átta liða úrslitum mælsku og rökræðukeppni framhaldsskólanna (MORFÍS). Keppnin fer fram í hátíðarsal Grunnskólans á Egilsstöðum og hefst klukkan 19:00.



Lið ME skipa þau Rebekka Karlsdóttir, Sigurður Jakobsson og Almar Blær Sigurjónsson. Umræðuefni kvöldsins er „við lærum af sögunni" og mun lið ME mæla á móti því.

Í samtali við Austurfrétt sagði Sigurður undirbúning liðsins ganga vel og andstæðingana mjög verðuga. „Versló er sterkt nafn í Morfísheiminum og er það lið sem hefur unnið keppnina hvað oftast. Við látum það hins vegar ekki slá okkur út af laginu – þvert á móti, það er bara gaman að taka svona stórri áskorun. Það eru tíu ár síðan ME komst jafn langt í keppninni og við hvetjum alla til þess að mæta í kvöld og styðja okkur."

Lið ME, frá vinstri: Sigurður Jakobsson meðmælandi, Almar Blær Sigurjónsson stuðningsmaður, Rebekka Karlsdóttir frummælandi og María Elísabet Þorvaldsdóttir Hjarðar liðsstjóri. Mynd: Elsa Katrín