Þetta er allt að smella: Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði tilnefnd til Eyrarrósarinnar
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. mar 2015 12:45 • Uppfært 25. mar 2015 14:07
Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði er eitt þeirra verkefna sem tilnefnt er til Eyrarrósarinnar í ár, en það er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar.
Í lýsingu Byggðarstofunuar á Sköpunarmiðstöðinni segir að verkefnið byggi á sjálfbærni og nýti samlegðaráhrif skapandi einstaklinga og verkstæða. Með því skapist aðstæður þar sem þekkingarmiðlun og samvinna eigi sér stað milli greina með tilheyrandi nýsköpun, með það að markmiði að til verði áhugaverð störf skapandi greina.
Auk Sköpunarmiðstöðvarinnar eru Listasafn Árnesinga og Frystiklefinn á Rifi tilnefnd í ár. Verðlaunin verða veitt á Ísafirði þann 4. apríl næstkomandi.
Við fáum ekki taugaáfall úr þessu
Rósa Valtingojer er verkefnastjóri Sköpunarmiðstöðvarinnar. „Tilnefningin er mjög gott klapp á bakið fyrir alla sem hafa unnið ómælda sjálfboðavinnu við að koma þessu á koppinn, mjög góð hvatning til þess að halda áfram," segir Rósa.
Rósa segir þetta í fyrsta skipti sem þau sækja um aðild að Eyrarrósinni. „Okkur hefur ekki þótt það tímabært fyrr, en það er svo margt sem er að smella saman núna. Trésmíðaverkstæðið okkar eru á fullu og þar vonumst við til að geta haldið einu stöðugildi. Einnig erum við komin af stað með vinnustofudvöl, en gengum hana fáum við til okkar listamenn sem dvelja hjá okkur í mánuð í senn og vinna að sínum verkefnum. Ásóknin í þetta er alltaf að aukast og við erum nánast orðin uppbókuð út árið. Við það skapast einnig eitt stöðugildi. "
Margt er framundan hjá Rósu og félögum. „Við erum að fjölga verksmiðjum hjá okkur, en fyrir erum við með trésmíðaverkstæði, járnsmiðju, rafmagnsverkstæði og menningasal. Við áætlum að opna fyrir keramik- og gler, skúlptúr og prent. Auk þess erum við að vinna að stórglæsilegu hljóðveri sem verður tilbúið í haust."
Rósa horfir björtum augum á framtíðina. Við höfum aldrei misst vonina þó svo við höfum oft misst móðinn og hótað því að hætta öllu saman og flytja í burtu. Nú er þetta allt að smella og ég held að við fáum ekki taugaáfall úr þessu."