„Við erum ekki stjórnarandstaða": Íbúasamtök virkjuð á Reyðarfirði

rfj fjardabyggdBlásið hefur verið lífi í íbúasamtök Reyðafjarðar sem stjórnarmeðlimir líta á sem virkt afl þar sem allir geta lagt sitt af mörkum til þess að gera gott samfélag enn betra.

Íbúasamtökin voru til en höfðu verið óvirk um tíma. Elísabet Reynisdóttir segir hugmyndina um að blása í þau lífi hafi kviknað á fundi sem haldinn var um miðbæ Reyðarfjarðar fyrir stuttu. Í kjölfarið fundarins var mynduð stjórn sem samanstendur auk hennar af Agnari Bóassyni, Ásdísi Bóasdóttur, Jóni Ólafi Eiðssyni og Sigríði Hrönn Gunnarsdóttur.

„Okkur finnast íbúasamtök nauðsynlegt afl í öllum bæjarkjörnum, sérstaklega til þess að tengja saman íbúa og bæjarstjórnendur. Við viljum þó leggja áherslu á að vera frekar á jákvæðu nótunum – ekki bara að senda neikvæð erindi inn á bæjarskrifstofuna, heldur fá þau til þess að vinna með okkur og þrýsta á að eitthvað jákvætt og skemmtilegt sé gert.

Auðvitað tökum við þó á málum sem okkur þykir þurfa að skoða. Núna erum við til dæmis að skrifa bréf til bæjarráðs og mótmæla fyrirhuguðu skotveiðisvæði út við skógrækt. Sú staðsetning passar engan vegin að okkar mati, þetta er skemmtilegt útivistarsvæði sem ekkert á skylt við skotveiðar," segir Sigríður Hrönn.

Elísabet tekur í sama streng. „Við erum ekki stjórnarandstaða, heldur jákvætt afl sem getur gert gott samfélag enn betra. Við munum hittast reglulega og skoða þau mál sem eru í gangi hverju sinni. En eins og Sigríður segir, þá hikum við ekki við að senda inn erindi um þau mál sem okkur finnst þurfa að skoða og biðja til dæmis um opinn fund um málið. Það skiptir einnig máli að hafa það sýnilegt sem við erum að gera, en þá virka samtökin sem ákveðinn sýnihópur," segir Elísabet og vísar til Facebooksíðu hópsins, Íbúasamtök Reyðarfjarðar.

Langar að endurvekja Bryggjuhátíðina

Eitt af því sem stjórn íbúasamtakana langar að gera, er að endurvekja Bryggjuhátíðina sem haldin var á Reyðarfirði fyrir rúmum 20 árum.
„Mörgum íbúum finnst vanta almennilega bæjarhátíð á Reyðarfirði og okkur langar að endurvekja Bryggjuhátíðina í einhverri mynd – jafnvel tengja hana við Hernámsdaginn og gera meira úr þeirri helgi. Í því samhengi sjáum við fyrir okkur að virkja unga fólkið, enda lítum við á íbúasamtökin sem virk samtök þar sem allir taka þátt.

Við eigum ótrúlega mikið af hæfileikaríku fólki sem er um að gera að efla. Það þarf ekki að leita út fyrir bæinn, bara smúla rétta fólkinu út. Hér búa 1200 manns og við getum gert svo gott úr þessu. Okkur langar að hvetja Reyðfirðinga til þess að fylgjast með síðunni okkar," segir Elísabet og Ásdís bætir við; „Það eru allir að ræða þessi mál við eldhúsborðið heima hjá sér, af hverju ekki að koma þeim í réttan farveg?"

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.